146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[13:44]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Frú forseti. Í þeim lögum og reglum sem fjalla um þessa nefnd eru tilgreindir nokkrir þættir sem nefndin á að líta til, t.d. reynsla af dómarastörfum eða reynsla í lögmannsstarfi, fræðistörf o.s.frv. Í þeim lögum og reglugerðum er ekkert kveðið á um að það skuli vera eitthvert tiltekið vægi. Engu að síður hefur þessi hæfnisnefnd í gegnum, ég veit það ekki, reynslu, hefðir, komist að þeirri niðurstöðu að meta þættina eftir ákveðnu vægi. Setja 20 á einn þátt, 20 á annan þátt, 10 á hinn þáttinn, eins og kemur fram í þeim skjölum sem þeir þingmenn sem aðgang hafa að þeim hafa séð. Það er ekkert sem ráðherra hefur sett. Ég er ekki viss um að ég myndi vilja að ráðherra tilgreindi þessa tilteknu vogstuðla í sérstakri reglugerð. Kannski væri það gagnsærra, en ég held að það sé ekki mikil hefð fyrir því miðað við lagaframkvæmd á Íslandi. Hins vegar get ég vel skilið, hafandi litið yfir listann, að ef ráðherra hefur komist að því að t.d. dómarastörf hafi ekki verið metin nógu há af nefndinni, vegna þess að það er bara einhver tala sem kemur út úr þessari nefnd, að hún hafi komist að þessari niðurstöðu, að ýta nokkrum einstaklingum upp — það er bara mjög málefnalegt sjónarmið.