146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[14:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var kannski eitt atriði í ræðu hv. þingmanns sem ég vildi bregðast sérstaklega við þó að ég sé, eins og menn geta kannski ímyndað sér, ósammála mun fleiru. Það var það atriði að það að ráðherra veldi að gera tillögu að hluta til um önnur dómaraefni en matsnefndin eða dómnefndin komst að niðurstöðu um fæli í sér vanvirðu við störf dómnefndarinnar. Ég held að það verði að mótmæla því, hafi ég skilið hv. þingmann rétt, að hún hafi verið að vísa til þess með þeim orðum. Það er þannig að hæstv. ráðherra hefur tekið það fram í mörgum tilvikum að þó að hún kunni að vera annarrar skoðunar en dómnefndin er hún ekki með nokkru móti að gera lítið úr störfum hennar og byggir að miklu leyti á þeirri vinnu sem fram fór af hálfu dómnefndarinnar.

Það er líka ljóst í málinu að lagaumhverfið gerir beinlínis ráð fyrir því að ráðherra geti komist að annarri niðurstöðu fyrir sitt leyti, þegar ráðherra gerir tillögu, en dómnefndin. Ég held að það sé fullkomin oftúlkun, ef ég orða það þannig, að halda því fram að það myndi þá í hvert skipti vera túlkað sem vanvirðing við störf þeirrar dómnefndar. Það er einfaldlega gert ráð fyrir því að ráðherra geti komist að annarri niðurstöðu fyrir sitt leyti og lögin fela ráðherranum með skýrum hætti skipunarvaldið eða veitingarvaldið í þessum tilvikum en ekki dómnefndinni. Það er hins vegar alveg rétt að ráðherra þarf að standa fyrir tillögum sínum og ákvörðunum í þessu sambandi sem ráðherra gerir og mun gera.