146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[14:20]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Það er kannski vert að minna á að það sem hinir ágætu ráðherrar gerðu, sem þingmaður vitnaði í rétt í þessu, og sú vinna sem allir hlutaðeigandi lögðu á sig til að þetta myndi ganga eins og best væri á kosið og vera eins öflugt tæki í okkar stjórnkerfi og væntingar stóðu um, og ég held að engin ástæða sé til að hafa áhyggjur af öðru, sé stór partur af því og það er algjörlega kýrskýrt að veitingarvaldið er hjá ráðherra. Það mat ráðherra og það veitingarvald út frá því er skýrt. Það er samkvæmt lagaramma stjórnsýslunnar og það er ekkert að mínu viti sem fulltrúi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem bendir til annars en að ráðherra hafi farið í einu og öllu eftir þeim heimildum og þeim lagaramma sem honum var sniðinn í því samhengi.

Ég heyri að vitnað er í sérfræðinga sem komu fyrir nefndina og er það vel. Ég tel síður að verið sé að fullyrða hvað þeir sérfræðingar sögðu eða sögðu ekki. Ég tek ekki undir það að sérfræðingar hafi verið á einu máli um að þarna hafi á einhvern hátt ekki verið nógu vel staðið að málum. Ég vil hins vegar minna á að nefndin var hvött til að Alþingi ætti að passa, hún varaði við því, að Alþingi færi ekki sjálft í rannsókn á stjórnsýslumáli.

Að því sögðu langar mig að fá að nota tækifærið þar sem hv. þm. Jón Þór Ólafsson, samflokksmaður hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, fullyrti áðan að ég hefði ekki verið viðstödd alla vinnu nefndarinnar. Í ljósi mikilvægis þessarar umræðu og hvað var sagt og gert og hvað var lagt fyrir nefndina til þess að taka afstöðu, þá sat ég þar hverja einustu mínútu. Þetta var rangt hjá hv. þingmanni. Það er miður þegar við erum að ræða (Forseti hringir.) svona mikilvægan hlut.