146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[14:26]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Eins og öllum ætti að vera ljóst ræðum við hér tillögu dómsmálaráðherra um 15 dómara við nýjan Landsrétt. Fyrirliggjandi tillaga ráðherra varðar heildarskipun á nýjum dómstól sem er falið mjög mikilvægt nýtt hlutverk í dómskerfi landsins og markar ákveðin tímamót í réttarsögunni. Af þeirri ástæðu er það grundvallaratriði og eðlileg krafa að vandað sé til verka og skipun dómara sé hafin yfir allan vafa. Eftir að hafa setið á fundi eftirlits- og stjórnskipunarnefndar við þessa yfirferð telur minni hlutinn, og ég reyndar einnig, að undirbúningur málsins sé ekki nægilega traustur.

Frá hruni hefur traust almennings á Alþingi verið í ruslflokki, mælist nú um 22%. Við það getum við auðvitað ekkert búið. Það þarf væntanlega ekki að fjölyrða um það eina leiðin til þess að endurvinna þetta traust aftur er að hér séu ástunduð vinnubrögð sem eru hafin yfir vafa hverju sinni.

Frú forseti. Mat á hæfni umsækjanda um starf er oft mjög vandasamt og margir matskenndir þættir sem þarf að skoða og ákveða innbyrðis vægi þeirra. Mér þykir satt að segja dálítið sérstakt að setja það upp eins og einfalt reikningsdæmi með einni réttri niðurstöðu. Ég get tekið undir með ráðherra að það sé hæpið að það teljist raunverulegur munur á hæfni tveggja umsækjanda þegar það munar um 0,03% í einkunn á skalanum núll og upp í tíu. Eðlilegra væri að telja þá einstaklinga jafn hæfa og ef tveir einstaklingar teljast jafn hæfir þá koma önnur sjónarmið til skjalanna, svo sem kynjahlutföll og annað.

Það var því kannski ekkert óvænt og jafnvel örlítið skiljanlegt að ráðherra skyldi velta þessu fyrir sér og horfa til þess við endanlegt val sitt. Þá er líka alveg sjálfsagt og sanngjarnt að halda því til haga að sjónarmið voru höfð hér uppi í umræðum á Alþingi um að heppilegast væri að nýr dómstóll endurspeglaði breytt litróf hvað varðaði bakgrunn og einnig að kynjahlutföll yrðu sem jöfnust. Nú er heldur ekki deilt um það að ráðherra hefur heimild til að víkja frá niðurstöðum dómnefndar, enda verði það á endanum samþykkt af meiri hluta Alþingis.

Hins vegar leysir það ráðherra ekki undan þeirri meginreglu stjórnsýsluréttarins sem m.a. er fjallað um í dómum og álitum umboðsmanns Alþingis að skipa skuli þann hæfasta sem völ er á úr hópi umsækjenda. Í því skyni þarf að rannsaka mál vel og rökstyðja niðurstöður mjög ítarlega. Sú regla tryggir almannahagsmuni og uppfyllir jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Í því sambandi má vitna til dóms Hæstaréttar í máli nr. 412/2010, frá 14. apríl 2011, þar sem hluti niðurstöðunnar var að ráðherra hefði við skipan héraðsdómara í embætti ekki uppfyllt rannsóknarskyldu við töku ákvörðunarinnar. Ljóst er að liggja þarf fyrir fullnægjandi rökstuðningur fyrir því að umsækjendur sem ráðherra leggur til séu a.m.k. jafnhæfir og þeir sem dómnefndin leggur til.

Nú er ljóst, frú forseti, að ráðherra gerir allverulegar breytingar á vali dómnefndar. Tillagan felur með öðrum orðum í sér að fjórir umsækjendur af þeim 15 sem dómnefnd taldi hæfasta eru felldir brott og aðrir fjórir koma í þeirra stað. Það gerir u.þ.b. fjórðung dómsins. Ráðherra og Alþingi var gefinn afskaplega knappur tími til að fara yfir málið. Það er auðvitað sérstaklega óheppilegt í ljósi þess hve mikilvægt hlutverkið okkar er að þessu sinni og hversu nauðsynlegt er að vanda til verka. Þess vegna m.a. lagði minni hlutinn til að málinu yrði frestað um nokkrar vikur og þannig hefði ráðherra getað uppfyllt rannsóknarskyldu sína á fullnægjandi hátt. Þingið hefði svo getað komið saman síðar í sumar til að ljúka málinu.

Mér finnst allt of mikið í húfi til þess að við nýtum okkur ekki þennan aukna tíma sem hefði gefist til þess að skapa meiri frið um niðurstöðuna. Það er einfaldlega allt of mikið í húfi fyrir traust á dómstólum landsins til þess að menn freisti þess ekki þar sem ekki er full eining um tilnefningarnar. Þetta er í rauninni í takt við álit margra þeirra sérfræðinga sem komu fyrir nefndina. Það er rétt að nefna það, af því hv. þingmaður kom hér áðan og talaði um að ekki hefðu allir verið á einu máli. Þannig er það nú sjaldnast. En þau vógu samt þungt, orð margra þeirra sem komu inn sem töldu að ráðherra hefði hugsanlega getað uppfyllt rannsóknarskyldu sína betur ef það hefði gefist meiri tími. Þeir töldu að til þess að leggja á þá sérfræðilegu skoðun og til þess að ráðherra gæti skoðað og framkvæmt fullnægjandi mat á einstökum umsóknum, miðað við þau sjónarmið sem fram komu og samræmdist best þörfum Landsréttar, hefði hún þurft meiri tíma og hugsanlega miklu meiri aðgang að gögnum. Þetta voru þeirra orð.

Frú forseti. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var líka skammtaður óhóflega stuttur tími til skoðana málsins. Það er auðvitað óheppilegt af því að mér skilst að það liggi fyrir talsvert litlar reglur um hvernig eftirliti Alþingis með þessari ákvörðun ráðherra skal háttað. Ráðherra lét fylgja tillögu sinni bréf, dagsett 29. maí síðastliðinn, þar sem gerðar eru ákveðnar athugasemdir við aðferðafræði og niðurstöðu dómnefndar, m.a. að mat á hæfni dómara geti aldrei orðið vélrænt og vægi dómarastarfa hljóti við mat nefndarinnar ekki það vægi sem tilefni gefur til og reifuð eru almenn sjónarmið um að á grundvelli þessa leggi ráðherra því til nýja fjóra einstaklinga úr hópi umsækjenda en fjórir umsækjendur, eins og áður sagði, sem dómnefnd leggur til eru teknir út úr tillögunni.

Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þann 31. maí kom enn fremur fram í máli ráðherra að þessu til viðbótar lægju þau sjónarmið að horfa þyrfti til heildarsvips nýskipaðs Landsréttar sem má sömuleiðis lesa úr umfjöllun um huglæga þætti í bréfi ráðherra til forseta frá 29. maí.

Ég held að ljóst sé að viðfangsefni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er því að meta tillögu ráðherra og meta hvort rökstuðningur nefndarinnar fullnægi kröfu um rökstuðning og um rannsóknarskyldu m.a. Það hlýtur að vera mjög skýr krafa frá Alþingi að ef ráðherra ákveður að víkja frá mati dómnefndar þá beri honum að framkvæma eigin rannsókn á hæfni umsækjenda þannig að enginn vafi leiki á að hæfustu einstaklingar séu skipaðir í samræmi við gildandi meginreglur laga.

Niðurstaða dóms í Hæstarétti í máli 412/2010 sýnir að ráðherra bar þá að framkvæma eigin rannsókn og hlíta eigin starfsreglum. Þótt lögum um dómstóla hafi verið breytt síðan gilda auðvitað enn sömu grundvallarreglur stjórnsýslulaganna hvað þetta varðar, en rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga leggur áherslu á að stjórnvöld fullrannsaki það mál sem liggur fyrir og viði að sér nægilegum upplýsingum til þess.

Eins og áður sagði kom fjölmargt fram hjá gestum sem komu til nefndarinnar sem benti til þess að efast mætti um að ráðherra hafi staðið nægilega vel að málum og rökstutt mál sitt í samræmi við það sem kröfur eru gerðar um. Nú kann það vel að vera að sá rökstuðningur og sú rannsókn hafi farið fram en það hafi þó ekki komið nægilega vel fram inn til nefndarinnar. Þess vegna hefði verið svo kærkomið, held ég, að prófa það verklag að gefa í þetta aðeins lengri tíma þannig að ráðherra gæti sannarlega skýrt mál sitt betur og sannfært nefndarmenn, af því að eins og ég kom að í upphafi þá efast ég ekki eitt augnablik um það að heimild ráðherra sé skýr að fengnu samþykki Alþingis. Ég útiloka það ekki einu sinni að sá listi sem hún lagði fram gæti á endanum fullnægt þeim kröfum sem gera þarf.

Mér finnst heldur ekki, eins og ég nefndi fyrst, að niðurstaða dómnefndarinnar hafi verið það óvefengjanleg, ekki síst með tilliti til þess hversu lítill munur er á fólki, með teknu tilliti til þess að hér er alltaf um huglæga þætti að ræða að einhverju leyti. Að það hafi ekki mátt tefla fram annarri tillögu. Ég vil að það komi skýrt fram að ég er ekki að gera ágreining um það. Það eina sem ég er að segja er að ráðherra þarf að rökstyðja ákvörðun sína sérlega vel ef víkja á frá áliti nefndarinnar, af hverju einn er ráðinn fremur en annar. Það er mín skoðun að rökstuðningur ráðherra um að víkja frá mati nefndarinnar sé ekki nægilega ítarlegur eða nægilega undirbyggður til þess að ég sé sannfærður um að þær hrókeringar hafi verið réttar. Þá er ég ekki með neinum hætti að halla orði á þá einstaklinga sem þar voru settir upp eða gera upp á milli þeirra ótal einstaklinga sem sóttu um, vegna þess að það kemur fram hjá sérfræðingum sem komu fyrir nefndina að það voru afskaplega margir hæfir sem sóttu um stöðuna.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra, ég vildi aðeins koma sjónarmiðum mínum almennt og Samfylkingarinnar fram, af hverju við munum ekki geta stutt þetta. Hér er um grundvallarmál að ræða sem varðar skipun nýs dómstóls sem er falið mjög mikilvægt hlutverk í dómskerfi landsins og sumir segja að marki kannski tímamót í réttarsögunni. Margir hafa beðið afskaplega lengi eftir þessu og fyrrverandi dómsmálaráðherra undirbjó vel og lagði mikla áherslu á að það yrði stór og mikill bragur á upphafinu. Því er mikilvægt að hann haldist.

Þess vegna er það tillaga mín í samræmi við tillögu minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að málinu verði vísað frá og til ráðherra til ítarlegri vinnslu, þannig að hún geti lagt fram gögn og á endanum geti þingið tekið afstöðu til þess og helst í sem mestri sátt.