146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[14:41]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þær hrókeringar sem gerðar eru eru ekki jafnaugljósar og þær kunna að virðast í fyrstu, ekki einu sinni með vísan til rökstuðnings ráðherra um aukið vægi dómarareynslu. Í fyrsta lagi eru þarna aðilar sem hrapa niður listann sem hafa kannski umtalsvert meiri reynslu af því en þeir aðilar sem fara upp. Síðan segir ráðherra að svo komi aðrir þættir og hún þurfi að vega þetta og meta á heildstæðan hátt. Það nægir því einfaldlega ekki að vísa einungis í gögnin frá hæfnisnefndinni, dómnefndinni, þó að þau eigi að liggja til grundvallar, allar þær 117 síður, og koma svo bara með fjögurra síðna álit þar sem starfsferill þeirra fjögurra sem eru teknir upp í 15 manna lista er rakinn.

Við þurfum skýringu á því líka því að hér talaði hv. þingmaður um að andmæli hefðu verið skoðuð. Þeir fjórir aðilar sem féllu af 15 manna upphaflega listanum og niður fengu mér vitanlega ekki tækifæri til andmæla. Hefði ekki þurft að standa að einhvers konar samanburði á þeim sem fara af listanum og þeim sem koma inn á hann? Það er ekki bara svo einfalt að fjórir fari upp og fjórir niður, vegna þess að við það að breyta vægi á matsþáttum eins og dómarareynslu, sem hefur áhrif á annað líka, vegna þess að það á að halda breiðum prófíl á þetta, fer allt af stað. Fram hefði þurft að fara nýtt sjálfstætt mat með rökstuðningi á öllum þessum aðilum.