146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[14:43]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er að spyrja hér út í rannsóknarskyldu eins og hún er skilgreind í stjórnsýslurétti; ekki um rökstuðning ráðherra eða eitthvað annað, ekki um andmælarétt sem menn hafa, heldur út í þessa rannsóknarskyldu. Að hvaða leyti er það ekki sýnt að ráðherra hafi sinnt henni? Við þeirri spurningu fást engin svör. Þvert á móti liggur það fyrir í þessu máli hvernig ráðherra hefur uppfyllt rannsóknarskyldu sína. Ráðherra hefur uppfyllt rannsóknarskyldu sína, ekki hefur verið sýnt fram á neitt annað (Gripið fram í: Segir hver?) Þess vegna bið ég um það, frú forseti, að hv. þingmaður útskýri þetta aðeins betur.

Hv. þingmaður nefndi dómafordæmi í máli Hæstaréttar 412/2010. Þar liggur til grundvallar að Hæstiréttur kemst að því að ráðherra hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni, en í því máli, eins og menn hafa kynnt sér, segir ráðherra að nefndin hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni. Svo kemur dómstóllinn og segir í viðbót við það að ráðherrann hafi ekki náð að sýna fram á að hafa uppfyllt rannsóknarskyldu sína. Í þessu máli er þessu ekki til að dreifa. Hér hefur hæstv. ráðherra sagt að nefndin hafi með fullnægjandi hætti sinnt rannsóknarskyldu sinni, bætt ofan á sinn þátt málsins til að kanna öll gögn málsins og byggt ákvörðun sína á hlutlægum málefnalegum sjónarmiðum.