146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[14:45]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við komumst kannski seint að niðurstöðu um það hvenær mál eru fullrannsökuð. Þó stendur í rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga að lögð sé áhersla á að stjórnvald fullrannsaki það mál sem liggur fyrir og viði að sér nægum upplýsingum til þess. Við teljum að því sé einfaldlega ekki til að dreifa þarna. Af því hv. þingmaður nefndi að ráðherra hafi talað um að dómnefndin hafi fullrannsakað málið þá er það rétt. Það kemur fram í minnisblaði dómsmálaráðuneytisins þar sem hún tíundar af hverju þessir fjórir einstaklingar eigi heima á 15 manna listanum. Það kemur hins vegar líka fram, í bréfi til forseta Alþingis frá 29. maí, að hún efast aðeins um að dómnefndin hafi lagt til grundvallar sjónarmið sem henni bar. Þar er ég pínulítið sammála hæstv. dómsmálaráðherra. (Gripið fram í: Það snýr ekki að rannsóknarskyldu.) Það snýr að því að hæstv. ráðherra er að finna að því í fyrra bréfi að dómnefndin hafi í raun ekki rannsakað til fullnustu hluti sem sneru að störfum dómara. Nú má hv. þingmaður hrista hausinn alveg eins og honum sýnist og í allan dag, en þannig er það nú samt.

Ef minnsti vafi leikur á að alþingismenn telji að málið sé nægilega vel rökstutt og fullrannsakað þá ber þeim auðvitað að láta vita. Þá varúðarreglu er þá alla vega skárra að hafa í heiðri frekar en að ætla sér að koma hér inn á síðasta degi án þess kannski að vera búinn að kynna sér málið og gera bara það sem til er ætlast af þeim.