146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[14:47]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu, sem fór á yfirvegaðan hátt yfir málið og er vonandi að skýrast fyrir þeim sem á hlusta.

Mig langar samt aðeins að halda áfram með þetta um rannsóknina og hlutverk Alþingis í að meta hvort við getum samþykkt tillögu hæstv. ráðherra eða ekki. Það sem mér finnst svolítið vanta, ég er sammála hv. þm. Teiti Birni Einarssyni um að það vanti svolítið upp á hvaða rannsókn það er sem vantar nákvæmlega og hvaða gögn það eru sem vantar. Nú liggur fyrir að öll sú rannsókn sem dómnefndin gerði eru gögn í málinu, eru gögn í þessu stjórnsýslumáli, öll þau gögn sem nefndin viðaði að sér og ráðherra kallaði eftir. Munurinn í þessu máli og hæstaréttardómi 412/2010 er sá að ráðherra byggir á rannsókn dómnefndar, en í dómnum gagnrýndi ráðherrann þar að full rannsókn hafi ekki farið fram. En hæstv. dómsmálaráðherra núna staðfestir að rannsóknin hafi farið fram og byggir á þeim gögnum.

Þess vegna spyr ég: Hvaða gögn eru það sem vantar? Hvaða gögn eru það sem einhver hafði ekki aðgang að til að fullkomna þessa rannsókn?

Svo er það hitt að í þessum rannsóknargögnum leggur ráðherra mat á það út frá því sem hæstv. ráðherra þykir mikilvægt fyrir nýjan dóm, nýjan Landsrétt, í heildina. Þess vegna spyr ég: Hvað er að mati ráðherra? Það er ráðherrann sem leggur hérna mat og hefur rökstutt það að hún sé ekki sammála mati dómnefndar en sé ekki að gagnrýna rannsóknina. Þetta er hvor sinn hluturinn.