146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[14:49]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það kann vel að vera að hæstv. ráðherra hafi rannsakað málið nógu vel. Hún hefur hins vegar ekki skýrt það nægilega vel fyrir nefndinni og lagt fram gögn. Ef hv. þingmaður ákveður að baka köku og honum finnst vanta aðeins meira hveiti í hana, þá er ekki nægilegt að setja bara meira hveiti, það þarf líka að vega og meta hvort það hafi áhrif á aðra þætti uppskriftarinnar. Þannig er það. Og það viðurkenndi hæstv. ráðherra þegar hún kom til nefndarinnar að auðvitað hafi það að gefa dómarareynslu meira vægi haft áhrif á allt annað líka, vegna þess að við það eitt hefðu orðið of margir dómarar, fyrrverandi, í þessum 15 manna dómstól, þannig að hún þurfti allt í einu að fara að minnka vægi annars staðar. Hún þarf klárlega að gera betur grein fyrir því hvernig hún komst að því að hástökkvari vikunnar fór úr 30. sæti, eða hvað það var, upp í 15. eða 14. eða 13. eða hvað veit ég, og af hverju sá sem var í 7. fór niður. Það kunna að vera fyrir því málefnalegar ástæður. Þær hafa ekki verið skýrðar. Okkar hlutverk hér er ekki í samræmi við það sem hv. þm. Pawel Bartoszek sagði að við værum bara stimpilpúði hérna, þá væri það hlutverk algjörlega óþarft, þá væri verið að halda fólki hérna án þess að það hefði nokkuð að gera.

Hlutverk okkar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er að kanna hvort heimild sem ráðherra vissulega hefur til að breyta frá niðurstöðu dómnefndar heldur vatni. Við erum ekki sammála því. Þess vegna gefum við henni í rauninni það gullna tækifæri að fá tvær, þrjár vikur til þess að safna saman þeim gögnum sem hún hugsanlega hefur, leggja þau á borðið, færa rök fyrir máli sínu og 30. júní gætum við hugsanlega labbað öll út héðan sannfærð um að við værum búin að skipa hinn eina rétta 15 manna dóm með hæfustu einstaklingunum.