146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[14:52]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þær vangaveltur sem uppi eru eigi frekar við um hversu langt þingið á að ganga í að meta menn. Eigum við að fara að meta hvern og einn umsækjanda, eða eigum við að leggja mat á það hvort ráðherrann hafi með málefnalegum ástæðum lagt mat á umsækjendur eftir að hafa uppfyllt rannsóknarskyldu sína með því að byggja á öllum þeim gögnum sem mögulega voru frá hæfnisnefndinni? Ráðherrann staðfesti það að hún teldi að hæfnisnefndin hafi uppfyllt rannsóknarskyldu og stjórnsýsluréttinn og byggir á þeim gögnum, en segir svo: Ég var bara ekki sammála matinu. Það er matið sem hún er að breyta og rökstyður það að til þess að dómstóllinn gæti farið hnökralaust af stað frá fyrsta degi þá væri mikilvægara að meta dómarareynsluna, af því af hæstv. ráðherra ber ábyrgðina, ber líka ábyrgð á að Landsréttur fari vel af stað. Þess vegna vildi hún meta dómarareynsluna hærra. En um leið segir í rökstuðningi hæstv. ráðherra að horfa þurfi á heildina þegar verið er að skipa nýjan dómstól og þegar kominn er nýr aðili inn með dómarareynslu hefur það vissulega áhrif á heildarásýnd dómstólsins.

Hvað eigum við að fara langt? Eigum við að fara að meta hvern og einn umsækjanda hér á Alþingi? Ég held ekki. Ég held að það sé okkar að meta hvort ráðherra hafi byggt á nægilegum gögnum með faglegum hætti og málefnalegum sjónarmiðum um að heildarásýnd réttarins þurfi að vera í lagi og að dómarareynslan gildi það mikið að hann komist hnökralaust af stað frá fyrsta degi.