146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[14:54]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla hæstv. ráðherra ekki eitt augnablik að hafa annað í huga en að sinna starfi sínu vel og leggja fram tillögu af metnaði samkvæmt hennar bestu vitund. Hún ber hins vegar ábyrgð á því að rökstyðja það nógu vel fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þannig að sú nefnd geti verið fullviss um að sjónarmið hennar sem víkja í veigamiklu atriði frá niðurstöðu dómnefndarinnar séu betri en nefndarinnar. Þegar komið er að spurningu hv. þingmanns um hvort við eigum að leggja mat á hvern og einn eða hvort við eigum að skoða listann í heild sinni, þá er það einmitt þannig að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á að skoða heildartillöguna, ekki hvern og einn. Síðan af einhverjum dularfullum ástæðum er það hér í þingsal sem við erum látin greiða með eða á móti hverjum einasta einstaklingi.

Eins og ég sagði áðan og ætla ekki aftur að fara að rifja upp líkinguna af kökubakstri, þá er það þannig að bara við það eitt að taka ákvörðun um að auka vægi dómara þegar búið er með hinni hendinni að gefa sér það að dómurinn eigi að hafa mikla breidd, þá mun það að lyfta fleiri dómurum upp hafa áhrif á aðra hæfisþætti. Hún verður einfaldlega að leggja fram heildstætt mat, nákvæm rannsóknargögn sem sýna fram á það að hún hafi haft málefnalegar ástæður til að víkja í þetta stórum og mörgum atriðum frá niðurstöðu dómnefndarinnar án þess að ég sé að stimpla hana og gefa henni heilbrigðisvottorð, en það er hlutverk okkar að gera það. Við það ætlum við að reyna að standa.