146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[14:56]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra Sigríður Andersen var eitt sinn spurð út í afstöðu sína til endurvinnslu af blaðamanni. Hún sagðist af prinsippástæðum ekki flokka rusl. Við höfum öll ólík prinsipp. Sum okkar vilja aukið gagnsæi, aukinn fagmannleika, aukið traust, meira samtal, minna fúsk. Þessi ríkisstjórn gaf út stjórnarsáttmála þar sem m.a. er talað um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Hæstv. umhverfisráðherra hefur jafnvel gefið út miklar yfirlýsingar um hvernig hún hafi bundið enda á stóriðjustefnu á Íslandi, eitthvað sem er erfitt að sjá fyrir arsenikmengandi eiturskýjum á Suðurnesjum. En svo mikið er víst að hægt er að henda þeim köflum stjórnarsáttmálans sem fjalla um traust beint í ruslið. Það er ekkert traust, frú forseti. Þið, kæra ríkisstjórn, treystið ykkur ekki einu sinni til þess að framfylgja eigin stefnu.

Virðulegi forseti. Ég veit ekki í hvaða rusl Sigríður Andersen myndi henda stjórnarsáttmálanum. Í pappírsruslið? Kannski myndi hún af prinsippástæðum rúlla saman pappírnum og koma honum laumulega fyrir innan um áldósirnar. Ég er a.m.k. forvitin um hvernig flokkunarkerfi hún notaði til að velja dómara. Noti maður sem viðmið starfsreynslu, menntun eða fjölbreytni til að skilja hvernig hún kemst að því hver fái að dæma um sekt eða sakleysi Íslendinga, hver fái að skera út um þau vandasömu mál sem rata úr héraðsdómi, og ef maður gerir ráð fyrir að þarna séu hæfniskröfur og þekking notuð til að velja hæfasta fólkið þá er engin leið að skilja hvað hæstv. dómsmálaráðherra er að gera.

Í frétt RÚV í gær kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Jóhannes Karl Sveinsson, hæstaréttarlögmaður með áratuga reynslu og störf fyrir hið opinbera, gagnrýnir Sigríði harðlega í umsögn sem hann sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Hann segir stefna í að tillaga ráðherra verði ríkinu dýr vegna mögulegs bótaréttar nokkurra umsækjenda og að í uppsiglingu sé hneyksli sem eigi eftir að valda langvarandi vandamálum í réttarkerfinu sjálfu.

Jóhannes segir alþekkt að sumir ráði ekki við þá freistingu að skipa vini sína, skoðanasystkin eða jafnvel ættingja í embætti en ganga fram hjá þeim sem þeir telji með óheilbrigðar skoðanir í þjóðmálum eða þeir telji sig eiga eftir að jafna einhverjar sakir við. Hann segir réttarkerfið hafa glímt við afleiðingar skipana af þeim toga í embætti dómara frá árinu 2007. Þar virðist hann ekki síst vísa til skipunar Þorsteins Davíðssonar í embætti héraðsdómara í desember 2007. Nokkrum árum áður hafði skipun Ólafs Barkar Þorvaldssonar í embætti hæstaréttardómara sætt gagnrýni.

Jóhannes Karl segir að með lagabreytingu árið 2010 hafi átt að koma í veg fyrir að dómsmálaráðherra félli í freistni í skipan dómara. Það hljóti því að vera lágmarkskrafa að ráðherra færi fram frambærileg rök sem dugi til að sannfæra Alþingi og aðra um að dómnefnd um hæfi umsækjenda hafi komist að rangri niðurstöðu. Hann segist hafa fengið áfall við að lesa rökstuðning ráðherra fyrir breyttri röðun umsækjenda. „Þau uppfylla engar lágmarkskröfur stjórnsýslu um að rökstuðning og standast auk þess enga efnislega skoðun.“ Þannig séu engin rök færð fyrir því að velja þá fimmtán sem ráðherra leggi til.

Jóhannes Karl segir að hrókeringar ráðherra geti ekki byggt á því að hún hafi talið dómarareynslu eiga að hafa meira hæfi en nefndin ákvað. Það rökstyður hann með því að Eiríki Jónssyni, sem var metinn sjöundi hæfastur, hafi verið skipt út en aðrir umsækjendur með minni dómarareynslu „látnir í friði“.

Leita verður skýringa á svona forkastanlegum vinnubrögðum, segir Jóhannes Karl í umsögn sinni. Hann spyr hvort stjórnmálaskoðanir fortíðar hafi ráðið þegar tilteknum umsækjendum var skipt út. „Urðu vina- og pólitísk tengsl til þess að aðrir voru teknir inn í þeirra stað?““

Forseti. Kannski er eitthvert prinsippmál hjá hæstv. ráðherra að einfaldlega flokka ekki, eða kannski er það einfaldara. Ef maður miðar við flokksskírteini, hvort viðkomandi sé meðlimur í Sjálfstæðisflokknum eða vel giftur, þá skyndilega skýrist myndin. Hæstv. ráðherra flokkar rusl þrátt fyrir allt.