146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[15:18]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður og hæstv. ráðherra segir að það leikur enginn vafi á því að Alþingi á að vera þessi neyðarhemill, neyðarventill og segja annaðhvort já eða nei, þarf nú ekkert að raða neinu. Það er ekki það sem er verið að tala um, það eru allir sammála um þetta.

Til þess að geta metið það hvort ég eigi að segja já eða nei við listanum eins og hann er lagður fram af ráðherra þá segir hv. ráðherra að rannsaka þurfi ákvæði og ákvarðanir og rökstuðning ráðherra. Hann segist hafa gert það, er ánægður og sáttur, notar bæði orðin, með rökstuðning ráðherra.

Hér er þá prófraun. Hvað er nóg fyrir hæstv. ráðherra heilbrigðismála, hvað er nóg fyrir hann af upplýsingum til þess að geta metið rökstuðning ráðherra þannig að hann sé ánægður og sáttur við rökstuðning ráðherra? Hefur hann lesið rökstuðning ráðherra? Hvað tók hann sér langan tíma í að kynna sér hann? Hefur hann lesið rökstuðning matsnefndarinnar og borið þá saman? Hvað er nóg (Forseti hringir.) fyrir ráðherra til að vera sáttur við rökstuðning?