146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[15:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ein af þessum skemmtilegu og djúpu spurningum, hvað sé nóg til þess að sá sem hér stendur sé sáttur. Það er hluti af starfi okkar þingmanna að taka ákvarðanir út frá þeim upplýsingum sem við höfum. Oft tekur maður ákvarðanir út frá minni upplýsingum en maður vildi hafa á styttri tíma en maður vildi hafa, en það er hluti af skyldum okkar að taka þá ákvörðun engu að síður.

Ég hef, eins og hv. þingmaður hefur örugglega orðið áskynja, verið störfum hlaðinn eins og margir aðrir þingmenn síðustu daga. Ég hef því ekki kynnt mér rökstuðning ráðherra jafn nákvæmlega og fulltrúar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafa gert. Ég hef hins vegar fylgst með og fengið upplýsingar, hlerað hjá þeim þingmönnum sem hafa setið í nefndinni og (Forseti hringir.) ég er nógu sáttur með þær upplýsingar til að geta tekið afstöðu til þessa hlutverks míns (Forseti hringir.) um það hvort rökstuðningurinn sé ásættanlegur (Forseti hringir.) eða hvort eigi að beita neyðarhemli.