146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[15:21]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þá vitum við það. Við vitum líka að rökstuðningur ráðherra er upp á nokkrar blaðsíður. Hann er ekki mjög langur. Það er einmitt það sem við sögðum, hann er ófullnægjandi. Hefur ráðherra ekki einu sinni kynnt sér hann? Þarf hann ekki að kynna sér þennan stutta rökstuðning ráðherra til þess að geta sagst vera sáttur við hann? Ráðherra segist vera búinn að vera á hlaupum og störfum hlaðinn. Við erum það öll. Það er einmitt þess vegna sem við viljum fresta þessari ákvörðun, þannig að við getum kynnt okkur þetta betur, þannig að ráðherra geti kynnt sér þetta betur.

Mér finnst mjög alvarlegt að ráðherra skuli koma hérna upp og segjast tala fyrir rökstuðningi ráðherra en síðan hefur hann ekki einu sinni lesið rökstuðning ráðherra og hvað þá haft tíma til þess, eins og við hin, að lesa 150 blaðsíðna umsögn og rökstuðning matsnefndarinnar sem þarf að bera saman ef maður ætlar að geta tekið upplýsta ákvörðun um það hvort beita eigi neyðarhemlinum, hvort verið er að segja: Nei, ráðherra er ekki með nógu góðan rökstuðning. Hérna er betri rökstuðningur. Komdu með betri rökstuðning. Komdu með góðan rökstuðning, eins góðan og hinir, þá skulum við gera þetta, (Forseti hringir.) taka upplýsta ákvörðun. Ég myndi segja að ráðherra (Forseti hringir.) hefði fallið á prófinu þarna.