146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[15:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður, það kann að vera að ráðherra hafi fallið á þínu prófi. Við erum ekki sammála um alla hluti, ég og hv. þingmaður. Ráðherra sagði ekki að hann hefði ekki lesið eða kynnt sér rökstuðning ráðherra. Það hef ég gert. En eins og ég sagði í fyrra svari mínu hefði ég viljað gera það betur og dýpra.

Ég vil halda því til haga að rökstuðningur er ekki endilega betri ef hann er á fleiri blaðsíðum eða verri ef hann er á færri blaðsíðum. Margar af merkustu upplýsingum, bókum o.s.frv. sem ég hef lesið, segjum t.d. bara Bókin um veginn, eru mjög stuttar. Og mörg plögg, t.d. íslenska stjórnarskráin, líka nýja íslenska stjórnarskráin, eru tiltölulega stutt plögg, en þau skipta samt miklu málin, þannig að blaðsíðutal gef ég ekki fyrir í þessu samhengi. Það breytir því ekki að í grunninn þá er ég sáttur við að ráðherra hafi rökstutt tillögu sína.