146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[15:26]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er sama hvað þú vandar til verka við bátasmíð, ef neglan er ekki nægilega góð þá verður báturinn ekki góður. Hér erum við að leggja lokahönd á nýtt dómstig, eitt stærsta skref í íslensku réttarkerfi, svo ég vitni í hæstv. ráðherra. Finnst hæstv. ráðherra í lagi að þegar Alþingi leggur lokahönd á það mikla samstöðuverk sem hæstv. ráðherra dásamaði hér sé það gert í ósátt? Að trúverðugleiki sé ekki fyrir hendi með þetta lokaskref? Því það er alveg sama hvort hæstv. ráðherra er sammála gagnrýni minni hlutans eða ekki, hann getur ekki lokað augum fyrir henni, hún er fyrir hendi. Ekki bara minni hlutans, líka úti í samfélaginu. Það er ekki sátt um þetta mikla verkefni, stærsta skref í íslensku réttarkerfi um áratugaskeið, svo ég vitni aftur í ráðherrann. Er það ekki ófaglegur ráðherra sem skilur nýtt dómstig eftir í skugga slíks ágreinings og með stuðningi hæstv. heilbrigðisráðherra?