146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[15:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Svo ég grípi til líkingar hv. þingmanns, þá er neglan í bátnum í raun og veru matsatriði, meðan hún heldur vatni þá er það ekki aðalatriðið hvort hún sé falleg eða ljót.

Þegar ég ræði um það að setning Landsréttar og nýtt dómstig sé eitt stærsta skrefið þá á ég við það að setja Landsrétt, að setja nýtt áfrýjunardómstig í íslenskt dómskerfi. Ég á ekki við það hvaða einstaklingar eru skipaðir í þann dóm.

Hér kemur ráðherra með lista, tillögu um einstaklinga úr hópi 33 umsækjenda sem hafa verið metnir hæfir til þess að sitja í þessum dómi. Þessi endapunktur er minnsta verkið í raun og veru við uppsetningu á nýju dómstigi. Þannig að hv. þingmaður (Forseti hringir.) er að lesa mjög undarlega í orð mín um stærsta skrefið. Ég segi það (Forseti hringir.) að ég er sáttur við þessa stöðu eins og hún snýr að mér sem (Forseti hringir.) alþingismanni. (KÓP: Sáttur eða …)