146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[15:29]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra talar um að það sé ekki okkar hlutverk að meta hæfi einstakra umsækjenda heldur sé það okkar hlutverk að fylgjast með og skoða hvernig ákvörðun ráðherra sé rökstudd og hvort hún sé vel rökstudd og byggð á faglegu mati. Ég tek algjörlega undir þetta hjá hæstv. ráðherra. Þess vegna ætla ég að reyna að útskýra fyrir hæstv. ráðherra um hvað ágreiningurinn hér snýst. Við treystum ekki þessu mati hæstv. ráðherra af því að það stangast á við annað sem ráðherra hefur áður sagt.

Eins og ég hef komið inn á áður þá hefur hæstv. dómsmálaráðherra sagt í ræðu í 1. umr. um breytingu á lögum um dómstóla að henni finnist mjög mikilvægt að litið sé til annarra þátta en dómarastarfa, hún vilji miklu frekar að horft sé til víðari þátta en það. Hún hafði möguleika á að breyta því viðmiði dómnefndarinnar áður en hún tók til starfa. En núna hefur henni allt í einu snúist hugur og hún vill leggja mat á dómarareynslu. Það rímar engan veginn saman. Ég kem kannski að kynjasjónarmiðunum í seinni ræðu, það er svo stuttur tími fyrir þetta, (Forseti hringir.) en ég vek athygli á að hæstv. ráðherra hefur ítrekað lýst yfir að hún hafi heldur enga trú á því. Hún getur ekki valið eftir einhverri hentistefnu (Forseti hringir.) hvaða sjónarmiða hún lítur til eftir á. Það er það sem er ágreiningur um. (Forseti hringir.) Það er ekkert traust á þessu mati.