146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[15:36]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir voða vænt um að hv. þingmaður hafi áhuga og skoðanir á persónu minni sérstaklega og finnist að ég sé skynsamur, lausnamiðaður og réttsýnn maður, svo ég vitni í orð hv. þingmanns, með leyfi forseta. Það er auðvitað voðalega huggulegt til þess að vita, en það þýðir ekki endilega að ég og hv. þingmaður séum sjálfkrafa sammála um hvað það þýðir yfirleitt.

Ég ræki störf mín hér á Alþingi, tek þá ábyrgð mjög alvarlega. Ég er lýðræðislega kjörinn til þessa að vera fulltrúi almennings og hef lagt drengskaparheit við stjórnarskrána til þess að starfa hér eftir bestu samvisku og eftir því sem bæði mín samviska og vitneskja og auðvitað (Forseti hringir.) mín pólitíska sannfæring leyfir. Það gerir (Forseti hringir.) það ekki að verkum að ég þurfi að vera vondur maður þó svo að ég sé (Forseti hringir.) ósammála hv. þingmanni í einhverjum málum.