146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[15:55]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við áttum orðaskipti fyrr í vetur þegar Landsréttur var til umfjöllunar. Þá talaði hv. þingmaður um karlæg sjónarmið varðandi hæfnisnefndina og að hún vonaði að ráðherra kæmi með lista umsækjenda með jöfnu kynjahlutfalli, sem ráðherra gerir. Hann rökstyður það að mínu mati mjög málefnalega og vísar m.a. til dómarareynslu og aukastarfa, að ekki sé hægt að líta til aukastarfa þegar um dómara sé að ræða af því þeir hafi færri tækifæri til þess en lögmenn. Ég velti fyrir mér því sem hv. þingmaður spyr um, hvort það þurfi að vísa til kynjasjónarmiða þegar konum er lyft upp en ekki málefnalegra röksemda, að þær eigi það skilið og séu jafn hæfar og aðrir aðilar sem þarna eru skipaðir.