146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[16:00]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Nýr dómstóll, nýtt dómstig, hefur starfsemi um komandi áramót. Eins og fram hefur komið munu starfa 15 dómarar við þann dómstól. Mikilvægt er að dómstóllinn og dómarar hans fái gott veganesti. Í þeim efnum er traust almennings mikilvægast en ekki síður stuðningur Alþingis við skipun dómaranna. Landsréttur og dómarar við hann verða svo að rísa undir þessu trausti með verkum sínum og vinna að því að treysta það og efla.

Sérstök dómnefnd hefur metið umsækjendur um dómaraembætti. Niðurstaða hennar, samkvæmt þeim viðmiðum sem hún setti sér, er að 33 umsækjendur séu hæfir og nefndin sendi hæstv. dómsmálaráðherra lista yfir þá 15 umsækjendur sem hún mat hæfasta. Við hv. alþingismenn höfum nú fengið tillögur hæst. dómsmálaráðherra um þau 15 dómaraefni sem hún leggur til að verði skipuð dómarar við Landsrétt. Af þessum 15 eru ellefu úr hópi þeirra sem matsnefndin taldi hæfasta í sínu mati en fjórir sem ráðherra setur í þeirra stað úr hópi þeirra sem voru í hópi þeirra 18 hæfu umsækjenda sem eftir stóðu. Okkar verkefni er að taka afstöðu til tillögunnar, samþykkja hana eða synja henni.

Það er hvorki vandalaust né hafið yfir gagnrýni og skoðanaskipti hvernig ákveðið er að velja og skipa dómara við hinn nýja Landsrétt. Það endurspeglast vel í umræðum sem hafa orðið í þingsal í dag og einnig þegar fjallað var um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla fyrir nokkrum vikum, en þar voru m.a. ákvæði um dómnefndina og störf hennar ásamt heimild ráðherra til að víkja frá umsögn dómnefndar til umræðu. Um heimild ráðherrans segir, með leyfi forseta:

„Frá þessu má þó víkja ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægir að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 21. gr. laga þessara.“

Í umræðum um þetta tóku margir hv. þingmenn þátt ásamt undirrituðum. Þar var einkum rætt um kynjasjónarmið og sýndist um þau atriði sitt hverjum. Við umræðuna spurði hv. þm. Andrés Ingi Jónsson m.a. í andsvörum við hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur þessarar spurningar, með leyfi forseta:

„Það er hins vegar þannig að ráðherra fær í hendurnar hæfnismat á öllum umsækjendum frá hæfnisnefndinni og ráðherra hefur svigrúm til að bregðast við ef hallar á annað kynið í þeim lista sem er metinn hæfastur, af því að þessi hæfisskilyrði eru ekki algild; þetta er engin stærðfræðileg nákvæmni. …

Ég spyr þingmanninn aftur: Segjum sem svo að ráðherra komi með lista af dómaraefnum sem ekki uppfylli lágmarksskilyrði um jafnan hlut karla og kvenna, mun þingmaðurinn slást í lið með okkur og beita sér fyrir því að bæta þar úr?“

Í beinu framhaldi tók hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir til máls og sagði, með leyfi forseta:

„Mig langar að ítreka spurninguna sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom með áðan: Ef svo fer að valnefndin og ráðherra bregðast í þessu samhengi, mun hv. þingmaður standa með okkur hér í ræðustól og mótmæla fyrirkomulagi sem ekki virðir jafnt hlutfall karla og kvenna við skipun í þennan nýja dómstól?“

Af tilvitnuðum ummælum má ráða að báðir þessir hv. þingmenn hafi litið svo á að hægt væri að víkja frá bæði tillögu dómnefndarinnar og ráðherra ef svo bæri undir. Ég er sammála þeirri skoðun. Þau rök hefði ég hiklaust notað hefði verið lagður til listi með óásættanlegum kynjahalla. Það hefði þingflokkur Viðreisnar gert. Ég þykist viss um að báðir þessir tveir hv. þingmenn hefðu gert það, ásamt fjölda annarra þingmanna.

Nú hefur það gerst að dómnefndin skilaði lista með 15 umsækjendum, tíu körlum og fimm konum, en dómsmálaráðherra nýtt sér heimild í lögum til að leggja fram eigin lista með ellefu þeirra sem dómnefndin lagði til en að auki nöfn fjögurra sem dómnefndin hafði metið hæfa en ekki sett í hóp þeirra 15 sem dómnefndin lagði til. Við þessa breytingu verða átta karlar og sjö konur á lista dómaraefna. Það er mikið fagnaðarefni og hefur mikla þýðingu fyrir hinn nýja dómstól og störf hans. Það stemmir mjög vel við mín sjónarmið í jafnréttismálum og ég veit að svo er einnig um mjög marga aðra hv. þingmenn.

Í þessu samhengi vil ég, með leyfi forseta, vitna til orða Ragnhildar Helgadóttur, deildarforseta lagadeildar Háskólans í Reykjavík, þar sem hún segir:

„Það er mikilvægt fyrir almenning að geta speglað sig í dómstólum líkt og það er mikilvægt að almenningur geti speglað sig í alþingismönnum sínum. Í því ljósi er mikilvægt að bæði kynin eigi sem jafnastan sess hjá dómurum því að þjóðfélagið er víst skipað körlum og konum til jafns.“

Dómsmálaráðherra hefur einnig bent á að dómarareynsla væri ekki metin að verðleikum að hennar mati í matsreglum dómnefndarinnar og þeirri reikniformúlu sem stuðst var við. Þetta þykja mér ágætlega gild rök. Með allt ofangreint í huga mun ég styðja tillöguna sem hér er fjallað um.  

Herra forseti Að lokum vil ég ítreka að þau dómaraefni sem skipuð verða eru öll hæf til þess að gegna embætti og málefnaleg rök standa að baki vali þeirra. Þrátt fyrir að margir þingmenn hafi sterkar skoðanir á því hvernig þessi listi varð til, en hæstv. dómsmálaráðherra hefur lýst því yfir að hann taki fulla ábyrgð á þeim lista, vil ég hvetja hv. þingmenn til að gæta þess að þær skoðanir bitni ekki á þeim sem taka sæti í hinum nýja dómi og grafi undan trausti til þeirra. Það er versta hugsanlega niðurstaða þessa máls fyrir dómstólinn, dómarana en ekki síst allan almenning í landinu.