146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[16:15]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var raunverulega að spyrja hv. þingmann hvort honum liði vel með þetta. En hitt er svo annað mál að það eru miklu, miklu fleiri heldur en þingmenn í þessum ágæta sal sem sjá yfir þessu einhver pólitísk veðrabrigði. Það þarf ekkert að nefna nein nöfn eða neitt. Þetta er það sem alltaf kemur upp í hvert einasta sinn sem embættisveitingar eru með þessum hætti, hvort það eru prófessorsstöður við háskólann, dómarar í dómstólum eða hvað eina, vegna þess að viðkomandi ráðherra gætir þess ekki að gera þetta með löglegum, hlutlægum og faglegum hætti. Ég þarf ekki að svara nokkrum sköpuðum hlut um þetta ágæta fólk þar sem ég þekki ekki einn einasta þeirra.