146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[16:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja að þakka hv. ræðumanni fyrir ræðuna. Það er vitanlega afar slæmt að við skulum vera stödd á þeim stað sem við eru á núna varðandi þetta nýja dómstig, að við á Alþingi skulum vera að deila um það hvort rétt hafi verið staðið að málum, hvort það hafi verið gert með réttum hætti, hvort ráðherra hafi þurft að rökstyðja betur eða eitthvað slíkt. Það er mjög slæmt fyrir dómstólinn að fara af stað í vinnu sína með þetta á bakinu, með það á bakinu að vafi leiki á því hvort hann njóti trausts almennt hjá þinginu.

Hv. þingmaður kom töluvert inn á kynjasjónarmið í ræðu sinni. Réttilega er gaman að sjá það að kynjajafnvægið í þessum nöfnum er býsna jafnt. En það er annað sem var lagt mjög til grundvallar, eins og ég hef skilið þetta mál, og það er dómarareynsla, reynsla af því að dæma. Nú er það þannig að það er karl í 7. sæti, ef ég man þetta rétt, sem er skipt út fyrir karl í 30. sæti og sá sem er tekinn út er með meiri dómarareynslu en sá sem er settur inn. Hvernig skýrir hv. þingmaður það?