146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[16:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hvað gerðist hér í gær? Það var vitað að það væri von á ákvörðun ráðherra fyrir þingið. Það sem var ekki vitað var hvernig ákvörðun ráðherra yrði rökstudd. Miðað við þær útskýringar sem við höfum fengið vakna nokkrar mjög alvarlegar spurningar. Spurningin er: Ef við hunsum að leita svara erum við þá að sinna eftirlitsskyldu okkar þingmanna? Þetta er mjög mikilvægt atriði að hafa í huga. Við megum ekki gleyma þessu mikilvæga aðhaldshlutverki þingmanna, við erum að leita svara og leita útskýringa.

Hér átti í gær að ljúka málinu í skjóli nætur. Það var sett á dagskrá og það átti að klára það í nótt. Það átti í rauninni að afgreiða að næturlagi það mál sem við ræðum núna. Enginn tími fyrir þingmenn til þess að undirbúa sig. Enginn tími fyrir samfélagið og fjölmiðla til þess að rýna í málið. Stjórnarþingmenn virtust bara treysta ráðherra og gleyma algjörlega eftirlitshlutverki sínu gagnvart valdbeitingu ráðherra. En þó að stjórnarþingmenn treysti ráðherra þá verður að spyrja hvort þeir treysti honum í blindni. Ef það átti að afgreiða málið í nótt með hraði, hvernig gátu þingmenn eins og ég tekið afstöðu í málinu? Það höfðu ekki allir þingmenn haft aðgang að öllum gögnum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Niðurstöðurnar voru komnar einhvern tímann í gærkvöldi og ef við hefðum þurft að taka ákvörðun og ýta á takkann í nótt þá hefði það atkvæði verið byggt á algjörlega óupplýstri ákvörðun. En sem betur fer var umræðan færð yfir til dagsins í dag. Myndin er orðin aðeins skýrari, en það er þó ýmislegt sem þarf að svara betur. Við erum að hugsa um hagsmuni almennings. Dómstigið er varnartæki þeirra fyrir misbeitingu framkvæmdarvaldsins.

Þau gögn sem við höfum séð, útskýringar á því af hverju einn var valinn fram yfir annan, sýna að það gengur í nokkrum skrefum. Það á að velja dómara með mikla dómarareynslu. Allt gott og blessað með það. Það er góð ástæða. En þegar rýnt er í þá sem voru teknir út af listanum í staðinn þá standa eftir aðilar sem eru með minni dómarareynslu. Allt í lagi. Til hvaða fleiri þátta er þá horft? Þá er litið til lögmannsreynslu samkvæmt ráðherra. Kíkjum aðeins betur á það. Það eru samt eftir einhverjir á 15 manna listanum sem eru með minni lögmannsreynslu en þeir sem voru teknir út. Hver er næsta útskýring? Það er hægt að grafa meira og meira til að finna hana. Útskýringin þá virðist eiga að vera sú að við þurfum að hefja okkur aðeins yfir excel-skjölin. Allt í lagi. Horfum á aðra þætti en koma fram í excel-skjalinu sem breytur fyrir mati ráðherra. Þær útskýringar — þær upplýsingar sem voru nýttar fyrir utan þær sem komu fram á matsblaðinu — hafa ekki komið fram. Þannig að við getum ekki sagt að það væri af því að hann er örvhentur eða af því að hann er rauðhærður eða hvað annað sem það gæti verið. Það vantar í myndina til að útskýra það af hverju einn var tekinn fram yfir annan. Þær útskýringar gætu verið til, ég skal bara segja að þær séu til, en við höfum ekki fengið þær. Við erum að biðja um þær upplýsingar.

Það er nefnilega ekki nóg að ráðherra hafi rétt fyrir sér. Það verður að vera hægt að útskýra af hverju ráðherra hefur rétt fyrir sér, að ákvörðunin sé hafin yfir allan vafa, eða a.m.k. útskýrð á endanlegan hátt þannig að það sé hægt að rýna hvort þeir matsþættir sem notaðir voru séu réttmætir eða ekki.

Af hverju er þetta mál alvarlegt? Ekki komast allir Íslendingar inn í þennan sal, en það er þá okkar hérna, fulltrúanna, að verja hagsmuni þeirra. Alþingi setur lögin sem framkvæmdarvaldinu ber að fylgja og dómstólar skera síðan úr um hvort lögum sé fylgt. Ef traust á framkvæmdarvaldinu bregst getur þingið brugðist við með vantrausti og dómstólar geta varið réttindi borgaranna gagnvart valdmisbeitingu. Ef traust á Alþingi brestur þá er hægt að kjósa aftur. En ef traust á dómstólum hverfur þá getum við glatað réttarríkinu, því með lögum skal land byggja.

Ef það er ekki hægt að treysta niðurstöðum dóma þá skiptir engu máli hvort framkvæmdarvaldið fer eftir lögum eða gegn lögum. Ef framkvæmdarvaldið fær fríspil frá Alþingi til að haga sér eins og það vill og engir dómstólar eru til að verja réttindi borgara þá stefnum við einfaldlega í áttina að gerræði. Alþingi getur enn bjargað málinu. Í stað þess að vera stimpilstofnun ráðherra þá getum við hagað því þannig að nefndin og ráðherra fái sinn tíma til þess að útvega allar útskýringar málsins, alla þætti málsins sem ráðherra telur að rökstyðji þá ákvörðun sína að velja þennan 15 manna lista en ekki einhvern annan 15 manna lista. Þegar búið er að fara í gegnum það þá er Alþingi kallað saman á einn fund, málið útskýrt og afgreitt. Þetta er ekki flókið. Það er ekki verið að tala um að halda umræðum í gangi næstu vikurnar á meðan nefndin og ráðherra vinna í þessum málum. Þetta er mjög auðveld leið, það getur vel verið að það skili ekki neinum sérstökum niðurstöðum, en það að tala lengur um málið gerir alla vega að verkum að við verðum betur upplýst þegar við greiðum atkvæði um það hvort eðlileg málsferð sé að baki lista ráðherra eða ekki.

Eins og málið lítur út núna þá eru atriði sem við stöldrum við, við þennan geðþóttarökstuðning eða eftirárökstuðning þar sem nefndinni berast alltaf fleiri og fleiri gögn málsins. Nefndin fær rökstuðning og segir: Er þetta það eina? Næst þegar ráðherra kemur þá koma meiri upplýsingar. Það þýðir að mann grunar að það sé bara verið að búa til rökstuðning. Það er mjög erfitt viðfangs.

Það hafa komið fram athugasemdir í fjölmiðlum um mögulega hagsmunaárekstra þegar listinn er skoðaður. Ef við förum aðeins í siðareglur ráðherra þá segir þar, með leyfi forseta:

„Ráðherra forðast árekstra á milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar og gætir þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf sín.“

Persónuleg tengsl. Það er það sem passar við þær fréttir sem hafa komið upp um þetta mál.

„Takist honum ekki að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra af þessu tagi skal hann upplýsa um þá.“

Allt í lagi. Þá er spurningin bara: Var farið eftir þessu eða ekki?

Að lokum hef ég áhuga á að velta upp ákveðinni samviskuspurningu sem er það sem skiptir öllu máli gagnvart okkur þingmönnum. Snúum hlutverkunum við. Ef ég hefði tekið svona ákvörðun, ég persónulega væri í þessu hlutverki, hvernig mynduð þið, þingmenn stjórnarflokkanna, bregðast við? Ef svarið er að henda þessu aftur í hausinn á mér, sem væri í rauninni vantraust eða frávísun, af hverju eruð þið þá að verja þessa geðþóttaákvörðun? Getið þið í hreinskilni sagt að þið, þingmenn stjórnarflokkanna, mynduð verja mig í sömu aðstæðum, miðað við þær upplýsingar sem við höfum, sama rökstuðning? Ég hlakka til að sjá það gerast, satt best að segja.

Ég get ekki annað séð en að ef ég væri í sporum dómsmálaráðherra þá myndi ég vonast til að aðhaldið yrði á þann hátt að ég yrði krafinn um betri rökstuðning. Ég ætla að vona að ef ég verð einhvern tímann í þeim aðstæðum, sem ég vona að ég verði ekki því ég hef engan áhuga á að fara í einhverja stóla þarna, þá gangi ég betur frá málunum.

Eina rétta leiðin sem ég sé núna er að draga þessa tillögu til baka, að dómsmálaráðherra stígi frá, að annar komi inn í staðinn, staðgengill komi og sinni þessu máli, klári þetta mál, komi með nýjan lista sem Alþingi afgreiðir og þá getur ráðherra komið aftur sem dómsmálaráðherra. Við höfum dæmi áður þar sem ráðherra hefur þrjóskast við að stíga til hliðar þegar um mögulega hagsmunaárekstra er að ræða. Afleiðingarnar af því voru ekki góðar, hvorki fyrir traust á Alþingi né þær stofnanir sem þar áttu í hlut. Ég hvet til þess að við hugsum þetta á yfirvegaðan hátt og tökum þetta á varúðarreglunni frekar en að reyna að kýla málið í gegn á svona stuttum tíma. Mér finnst það ekki vera óeðlileg krafa.