146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[16:36]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki lagt það í vana minn í ræðustól eða annars staðar að vera sérstaklega dramatískur, tala um ögurstund eða sögulegar stundir eða hvað það nú er. Ég er bara ekki alveg þannig gerður. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að fikra mig aðeins í þá átt núna af því að þetta er söguleg stund, við erum að breyta íslensku réttarkerfi. Hæstv. heilbrigðisráðherra talaði um eitt stærsta skref í íslensku réttarkerfi um áratugaskeið. Ég er sammála hæstv. heilbrigðisráðherra um það. Ég var líka sammála hæstv. heilbrigðisráðherra þegar hann sagði í ræðustól áðan að það væri mjög mikilvægt að vandað væri vel til verka. Ég og hæstv. ráðherra, eða hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans, drögum hins vegar ekki sömu ályktun af þessu. Ég dreg þá ályktun að ef það er mikilvægt að vandað sé til verka þá eigi menn að leggja eitthvað á sig til að vanda eins vel til verka og mögulegt er, jafnvel þótt það þýði að máli sem er í bullandi ágreiningi, ekki bara innan þings, heldur í samfélaginu öllu, hjá fagfólki, hjá þeim sem best þekkja til málsins, verði vísað aftur til föðurhúsanna, það unnið betur, rökstuðningur unninn betur og skrefin stigin af meiri vandvirkni. Það er það sem ég kalla að vanda vel til verka. Það er það sem ég hélt að stjórnmálafólk meinti þegar það lét kjósa sig inn á þing gegn því að berjast gegn fúski, gegn því að vanda til verka. Ég er svo einfaldur maður að ég hélt að það þýddi það í raun, að menn vildu vanda til verka.

Ég er líka sammála hæstv. heilbrigðisráðherra þegar hann sem óbreyttur þingmaður í september í fyrra talaði um sig og sinn flokk. Með leyfi forseta:

„Við þurfum að snúa frá óreiðustjórnmálum og lausatökum síðustu ára. Handarbaksvinnubrögð og fúsk eiga ekki rétt á sér. Það þarf að vanda sig. Það er kallað eftir meiri heiðarleika í stjórnmálum og meiri sanngirni í samfélaginu. […] Við höfum staðið við okkar gildi um að stunda betri og heiðarlegri stjórnmál. Við höfum haft kjark til þess að horfa til framtíðar, horfa á langtímasjónarmið. Við höfum stutt gott og staðið hörð á móti fúski […] Horfum fram á við, skiljum við fúsk og óreiðu síðustu ára og göngum óhrædd til kosninga því að framtíðin er björt …“

Ég var sammála hæstv. heilbrigðisráðherra Óttari Proppé þegar hann sagði þessi orð. Ég vildi að hann væri sammála óbreyttum stjórnarþingmanni, hv. þm. Óttari Proppé, þegar hann segir þessi orð núna þegar við erum að stíga þetta skref hér.

Ég hef átt samtöl við þingmenn úr öllum flokkum víða um húsið og hlustað á marga í pontu. Það er furðuleg sú skoðun sem ég hef heyrt marga tala um, eins og að það að vilja vinna málið betur, vilja vinna málið eins vel og mögulegt er, sé einhvers konar pólitísk skoðun, með því sé verið að hleypa málinu í einhverja pólitík. Það er svo fjarri öllu lagi. Ég vil standa vörð um virðingu Alþingis. Ég vil meira að segja standa vörð um virðingu framkvæmdarvaldsins, þótt ég tilheyri því ekki. Ég vil standa vörð um virðingu hins nýja dómstigs sem verið er að koma á.

Þau sem eru að setja málið í pólitískan tilbúning eru 32 þingmenn stjórnarmeirihlutans. Þau telja mikilvægara að klára málið núna. Ef þau hefðu fengið að ráða hefðu þau klárað það í skjóli nætur í nótt. Það tókst að koma vitinu fyrir hv. stjórnarmeirihluta, að það væri kannski í lagi að ræða málið í birtu, en ef þau hefðu fengið að ráða hefðu þau klárað málið í nótt af því að það lá svo rosalega á. Jú, lög segja það þurfi að gera þetta fyrir 1. júní. En það vill svo til að við erum löggjafarvaldið. Það að breyta dagsetningu á því hvenær einhver ákvörðun er tekin er pínulítið mál við hliðina á því að taka ákvörðun um skipan heils dómstigs.

Ef það er einhver sem heldur að stjórnarandstaðan sé á einhvern hátt að koma með pólitík inn í málið þá hefur fólk annaðhvort látið ljúga að sér eða misskilur málið. Það eina sem við biðjum um eru fagleg vinnubrögð, að sem flestum, helst öllum, en það er kannski erfitt, spurningum verði svarað fyrir fram, ekki reynt að redda rökstuðningi og svörum eftir á, að við getum haldið áfram þeirri vegferð sem er búin að vera í sátt á öllum stigum hennar þar til núverandi hæstv. ríkisstjórn tók til valda og ákvað að hleypa málinu í uppnám.

Það er ekki í lagi, virðulegi forseti, að hleypa jafn stóru og viðamiklu máli og þessu í uppnám á þennan hátt. Það er einfaldlega ekki í lagi.

Ég er ekkert hissa á því að allir stjórnarflokkarnir skuli vinna svona að málum, en ég ætla að lýsa yfir frá dýpstu hjartarótum einlægum vonbrigðum mínum með hv. þingmenn Bjartrar framtíðar sem taka þátt í þessum gjörningi sem er í grundvallaratriðum á móti því sem flokkurinn hefur sagst standa fyrir, gott ef ekki frá stofnun, í það minnsta fyrir síðustu kosningar. Enginn hefur getað svarað mér því hvað sé að því að gefa málinu tvær vikur, segjum það, í viðbót til að reyna að vinna eins faglega og hægt er.