146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[16:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að segja að ég er býsna ánægður með dómsmálaráðherra. Ég er mjög ánægður með það sjálfstæði sem ráðherrann sýnir. Ég er mjög ánægður með að ráðherrann skuli axla þá ábyrgð sem hún ber, að láta ekki endilega mata sig. Það er mjög mikilvægt að ráðherra hafi kjark og geri slíkt. En hins vegar held ég að ráðherrann sé að gera mikil mistök með því að keyra þetta mál hér í gegn með þeim hætti sem nú er gert. Ég held að ef ráðherra hefði gefið þessu aðeins meiri tíma hefði fjölgað þeim þingmönnum sem hefðu getað hugsað sér að vera á hinum svokallaða græna takka. Ég hugsa að ráðherrann hefði fengið fleiri fylgismenn ef rökstuðningurinn fyrir þessari ákvörðun hefði verið gerður aðeins betri, fitaður aðeins, ef það má orða það þannig. Það er vont að fara af stað með þetta nýja dómstig í svona miklum ágreiningi eins og nú er um málið.

Ég held að ráðherra hafi í rauninni viljað eitt gott en hafi flaskað á því og talið sig geta gert það án þess að rökstyðja málið ítarlegar. Það er það sem ég sakna og það er þess vegna sem ég get ekki stutt að það sé gert með þessum hætti. Vinnubrögðin eru þar af leiðandi ekki nógu góð í þessu máli. Svona vinnubrögð eigum við ekki að viðhafa. Það er leikur einn að bæta þau, það vitum við.

Það sem er kannski undarlegast í þessu öllu saman er að þeir flokkar og þeir alþingismenn sem hæst hafa talað um breytt og bætt vinnubrögð eru þeir sem ætla að tryggja þessu máli brautargengi, tryggja að það fari hér í gegn, þingmenn Bjartrar framtíðar. Ef við ef við gúglum, ef ég má sletta, frú forseti, orðið „vinnubrögð“ og t.d. „formaður Bjartrar framtíðar“ og „hæstv. heilbrigðisráðherra Óttarr Proppé“, koma upp hundruð tilvik þar sem sá ágæti þingmaður talar um bætt vinnubrögð. En hvar eru þau í dag? Ég hugsa að Björt framtíð hafi sett heimsmet núna, alla vega Evrópumet, í því að svíkjast undan merkjum og skipta um skoðun, í því að segja: Það er ekkert að marka það sem ég segi. Ég held að sé nýtt heimsmet, alla vega Evrópumet hjá þeim í dag. Þessi flokkur, sem mælist nú rétt um 3% í skoðanakönnunum, ætti náttúrlega að þekkja sinn vitjunartíma, en það gerir hann ekki því að stólarnir eru mjúkir.