146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[16:45]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Í dag syrgi ég réttarríkið á Íslandi sem á að vanvirða með þessum ósvífna hætti. Það skiptir nefnilega máli að við búum í réttarríki þar sem hlutleysi dómstóla og hlutleysi dómara er óvefengjanlegt, þar sem enginn vafi leikur á því að þeir sem eru best til þess fallnir hafi verið valdir í jafn mikilvæga stöðu og dómstólar og dómarar gegna í okkar lýðræðisþjóðfélagi, eða maður hefði haldið að það ætti enginn vafi að leika á því.

Hér hafa nokkrir stjórnarþingmenn og hæstv. ráðherrar komið upp og harmað að ekki náist betri sátt um þetta mál. En þeir hafa samt ekki gefið sér nema tvo daga til þess að útskýra og hafa hreytt í okkur einhverjum furðulegum útskýringum á því af hverju þetta fólk væri valið frekar en annað fólk. Og ekki hefur fengist neinn almennilegur rökstuðningur fyrir því að það sé rétt mat hjá hæstv. dómsmálaráðherra. Þetta kallast ný vinnubrögð. Og hér er harmað að ekki náist betri sátt um þetta mál, að við sem sitjum í stjórnarandstöðu og skiljum þetta ekki viljum helst fá beittari rök fyrir því hvers vegna farið sé eftir einhverjum flokkadráttum frekar en faglegu mati. Menn ætla ekki að gefa sér tíma til þess að útskýra fyrir okkur í rólegheitunum og ræða saman, eins og svo mörgum hefur verið svo tíðrætt um að gera skuli meira af á þessu þingi. Nei, það á að þvinga þetta mál í gegn. Það átti að þvinga það í gegn í skjóli nætur í gær, en þess í stað fáum við að ræða það í dag. Ég er bara mjög sorgmædd yfir þessu, frú forseti.

Núna búum við við þá stöðu að við erum að skipa hérna heilt nýtt dómstig sem fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra var mikið í mun að skyldi unnið í fullri sátt, enda væri mjög mikilvægt fyrir réttarríkið á Íslandi að full sátt yrði um það. Mér þykja hv. stjórnarþingmenn ansi svartsýnir ef þeir telja ekki að hefði verið hægt með samtali og samvinnu að finna góða lendingu í þessu máli sem allir þingmenn hefðu getað sætt sig við. Þess í stað skal málinu lokið núna þrátt fyrir að við höfum frest til 1. júlí til þess að skoða það betur. Þrátt fyrir að það sé full ástæða til þess að skoða það betur. Hver vegna? Jú, af því að hæstv. dómsmálaráðherra hefur orðið tvísaga í því sem hún hefur sagt að sé efni í góðan dómara. Þegar hún ræddi um dómara og mat á hæfni þeirra í umræðum um lög um dómstóla og hvernig þessi hæfnisnefnd skyldi meta þá, var henni alveg sama um kynjasjónarmið. Og henni var alveg sama, eða alla vega lýsti hún ekki sérlega miklum áhuga á því, að það væru allt of margir sem kæmu úr dómarastéttinni sem kæmu þarna inn. En nú er því borið við í þeim takmörkuðu upplýsingum sem við höfum, að þetta hafi verið sjónarmiðin sem réðu för við þessa breyttu skipan.

Hvernig eigum við að treysta því þegar ekkert annað hefur komið fram til að styðja þann málflutning þegar allt annað var sagt bara fyrir stuttu hér í pontu? Það er engin leið að treysta því. Það er skammarlegt að þessu þingi skuli ljúka með jafn miklu vantrausti á réttarríki á Íslandi. Það er ömurlegt, frú forseti.