146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[16:50]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Forseti. Það var búið að kynna mig í pontu fyrir einhverjum sekúndum síðan. Ég var inni í þingflokksherbergi. Biðst afsökunar á því.

Það sem mér finnst málið snúast um, út frá minni grunnu þekkingu á einstökum atriðum þess, er það að við erum að skapa dómstig og fólkið sem verið er að skipa sem dómara er skipað þangað til það getur ekki unnið lengur sökum örkumla eða dauða. Á meðan hvílir þessi skuggi á því, ef við ætlum að skipa dómarana eftir einhvers konar handvömm hjá ráðherra, út frá sjónarmiðum sem eru mögulega flokkspólitísk, mögulega femínísk, mögulega eitthvað annað. Þessi skuggi kemur til með að fylgja þessu í a.m.k. 30 ár, að því gefnu að þessir dómarar lifi eðlilegu lífi og ekki vil ég óska þessu fólki annars, annað væri mjög óeðlilegt, en þetta er rosalega svartur blettur ef satt reynist, þessar aðdróttanir um mögulega eitthvert misferli sem ég get ekki fært sönnur á vegna þess að ég hef ekki fengið að sjá gögn þess efnis. Ég veit ekki hvort þetta hafi raunverulega verið byggt á gögnum. Það er óttinn. Við getum fjarlægt þennan ótta með því að geyma ákvörðunina eins lengi og mögulegt er samkvæmt þeim lögum sem við samþykktum og þá sköpum við alla vega frið um þetta dómstig, eins mikinn frið og getur skapast miðað við umræðuna sem hefur verið hér. Meira hef ég ekki að segja.