146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[16:58]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Næstu skref eru þessi. Á eftir verða greidd atkvæði um málið. Fyrst verða greidd atkvæði um frávísunartillögu minni hlutans, ég legg til að sem flestir greiði atkvæði með henni, það þarf bara einn til að skipa um skoðun, og vísa málinu aftur til ráðherra. Þá fáum við meiri tíma af því að það þarf ekki að skipa í þennan dóm fyrr en 1. júlí. Þá hefur ráðherra tíma til þess að rökstyðja þetta betur þannig að það sé hægt á farsælan hátt að skipa í dóminn án þess að menn telji að það séu gerræðislegar ákvarðanir á bak við þessa skipun. Þar á eftir — sú tillaga verður að öllum líkindum felld, því það á að þvinga þetta í gegnum þingið, átti að gera það á tveimur dögum, verður gert á þremur — verða greidd atkvæði um tillöguna sem dómsmálaráðherra lagði fyrir Alþingi um hvernig eigi að skipa í dóminn. Ef nógu margir verða á rauða takkanum, það er bara einn sem þarf að vera þar í viðbót, þá dettur málið til ráðherra, það gerist í rauninni það sama. Við segjum bara nei, það er ekki búið að rökstyðja þetta nógu vel og málið dettur aftur í fangið á ráðherra og við höfum tíma til 1. júlí til þess að klára málið.

Að öllum líkindum mun það ekki verða raunin, að sjálfsögðu, vegna þess að stjórnarliðarnir eru búnir að einsetja sér að þeir ætla að fá að ráða þessu. Þá er það næsta skref. Við hv. þingmaður Birgitta Jónsdóttir höfum sent beiðni til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að við óskum eftir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kanni ákvarðanir dómsmálaráðherra og verklag við vinnslu tillögu til Alþingis um skipan dómara í Landsrétt á grundvelli þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Það þýðir að við könnum ákvarðanir og verklag ráðherra í þessu máli. Þá koma öll gögn upp á borðið og við tölum við alla aðila málsins, komumst til botns í þessu. Á þeim tíma fara líklega að detta inn dómsmál, þau geta farið fram samhliða. Á endanum komumst við til botns í þessu máli. Skaðinn er að vísu skeður að því leytinu til að þetta eru óafturkræfar skipanir. Það þurfa allir að sitja uppi með sem styðja dómsmálaráðherra í þessu máli. Það þýðir vantraust á dómskerfið okkar.

Píratar eru sjálfir búnir að ákveða að þeir vilja leggja fram vantrauststillögu. Varðandi ráðrúmið eða svigrúmið sem minni hlutinn þarf til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun um það sjálfur þá mun þessi rannsókn styðja við það, upplýsingarnar koma upp á borðið, þannig að aðrir minnihlutaflokkar geta metið það hvort þeir vilja vera með í slíkri vantraustsyfirlýsingu. Við krefjumst þess að þessi rannsókn fari af stað strax í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Við erum búin að senda það, ég og Birgitta, við erum í nefndinni. Það vantar einn annan nefndarmann til að gera það. Við erum búin að senda þetta á fjölmiðla. Í kjölfar slíkrar rannsóknar eða við slíka rannsókn, þegar nógu mikið af gögnum hefur komið í ljós, þá á einhverjum tímapunkti geta aðrir í minni hlutanum tekið upplýsta ákvörðun um það hvort þeir séu sammála Pírötum að það eigi að lýsa vantrausti á dómsmálaráðherra.