146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[17:40]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er afar bagalegt að nýr Landsréttur skuli hefja störf sín við aðstæður sem þessar. Það er alls ekki í anda þess ráðherra sem sigldi því máli í höfn hér á síðasta kjörtímabili. Sá ráðherra vildi leggja mikið á sig og gerði það til þess að málið færi allt saman fram í sátt. Það er ekki lengur í boði. Hér á að þröngva máli í gegn sem er algjör óþarfi að gera og nægur tími er til að fara betur yfir. Það er lítil reisn yfir þessu, hvað þá björt framtíð. Við eigum að standa vörð um dómstólana. Við eigum að auka tiltrú á dómstólum. Það gerum við ekki með því að leggja þetta til með þessum hætti og þeirri málsmeðferð sem ráðherra beitir. Því miður, virðulegi forseti, er ekki hægt að samþykkja þetta mál.