146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[17:42]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég segi enn og aftur: Við báðum bara um góð rök. Það sem er ólíkt með þessu máli og mörgum þeim málum sem við höfum afgreitt á þessu þingi núna í vor er að þegar mistökin eru gerð í málinu þá er ekkert hægt að laga þau í haust. Það er ekki hægt að laga þau jafnvel næsta vor. Þetta eru mistök, ef þau eru gerð núna þá kostar það traust á dómstigið í áratugi. Við vitum ekki hversu marga áratugi, en raunveruleikinn er sá að þetta er óafturkræf ákvörðun. Við verðum að hafa það í huga. Ég vona að einhver hafi hugrekki til þess að vera sá sem segir: Stoppum. Vísum þessu frá. Fáum betri rök. Klárum þetta vel, vegna þess að það er rétt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)