146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[17:43]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við viljum öll að réttmætt traust sé á dómstólum landsins. Ég held að það sé enginn hérna inni sem vill ekki hafa réttmætt traust á dómstólum landsins. Það kemur fram í stjórnarsáttmálanum. Það kemur eflaust fram í stefnuyfirlýsingu allra flokka. Allir landsmenn vilja það, sama hvar þeir búa, sama hvaða flokka þeir kjósa, við viljum hafa réttmætt traust á dómskerfinu okkar, það er grunnundirstaða.

Það sem við stöndum frammi fyrir núna er að velja. Við höfum tvö tækifæri til þess að vísa málinu til ráðherra aftur. Þá dettur það bara í fangið á ráðherra. Hún vinnur það betur. Hún getur komið því aftur til þingsins fyrir 1. júlí. Fyrst með því að greiða atkvæði á grænu í fyrstu tillögunni með því að vísa því til ráðherra, í annan stað að greiða atkvæði á rauðu gegn því að samþykkja tillögu ráðherra, beita neitunarvaldinu, vera varnaglinn, gegn gerræðislegri ákvörðun. Ef þetta er ekki gert þá er það ekki hafið yfir vafa (Forseti hringir.) að ráðherra hafi beitt gerræði í þessu máli. Þá er ekki réttmætt traust á dómstólunum.