146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[18:00]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Já, það fer núna fram tímamótaatkvæðagreiðsla á Alþingi. Það hefur aldrei gerst fyrr að þingið komi að skipun dómara. Það hafa aldrei áður jafn margir dómarar verið skipaðir í einu, en embætti 15 dómara voru auglýst laus til umsóknar 10. febrúar sl. Ég var ákaflega ánægð og þakklát að sjá að svo margir gáfu kost á sér til vandasamra verka og svo margir þeirra vel til starfans fallnir. Ég hef lagt fyrir Alþingi tillögu um nánar tilgreinda 15 einstaklinga vegna skipun dómara við Landsrétt. Þetta eru einstaklingar með ólíkan bakgrunn en sem allir eiga það sameiginlegt að búa yfir þeirri fræðilegu þekkingu sem þessi vandasömu embætti krefjast.

Ég er ákaflega þakklát líka fyrir þá vinnu sem hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd innti af hendi hér, hún hefur gefið sér tíma til að fjalla um málið á þessum annasama tíma þingsins, og einnig öllum þingmönnum sem gáfu sér aukadag við þinglok til að ræða þessi mál. Ég vil líka færa þakkir til Lögmannafélagsins (Forseti hringir.) og Dómarafélagsins og annarra aðila sem hagsmuni hafa af þessu máli fyrir að gefa sér tíma til að veita hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd álit með skömmum fyrirvara.