146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[18:04]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Mér hefur fundist í þeim umræðum sem hafa átt sér stað hér í dag áberandi hve stjórnarliðar virðast telja léttvægt það sem við erum að gera. Mér finnst það áberandi út af því að þessi stjórnarmeirihluti vildi ekki gefa þingheimi tækifæri til þess að fara ítarlega yfir málið og fá rækilega umsögn frá hæstv. ráðherra til að geta sinnt okkar mikilvæga hlutverki sem er að vera varnagli. Ráðherrann hefur svo sannarlega valdið til að taka ákvarðanir. En neitunarvaldið er hér. Það er hjá okkur. Og við berum ábyrgð. Við vorum ekki kosin á þing til að hafa ekki ábyrgð. Og það er vert að hafa í huga að Píratar líta ekki svo á og hafa enga skoðun á því hvort þessir dómarar séu hæfir eða ekki og við treystum dómnefndinni fullkomlega til að meta það. En mér finnst mjög mikilvægt að hafa í huga að sú ákvörðun sem við erum hér (Forseti hringir.) að taka er af sama vægi og ef við værum að breyta stjórnarskrá, veigamiklum atriðum í stjórnarskrá. Hafið það í huga.