146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[18:07]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Árið 2010 þegar við vorum að fjalla um þessi lög á Alþingi og þann ramma sem verið er að samþykkja, þessa vendingu, þennan lokapunkt, lagði þingflokkur þáverandi Hreyfingarinnar fram breytingartillögu. Breytingartillagan var á þann veg að ef ráðherra breytti tillögu dómnefndar, hæfnisnefndar, þyrfti tvo þriðju hluta þingmanna til að samþykkja það. Mikil væri gæfa okkar ef við hefðum samþykkt þá breytingartillögu því að það er þannig að við í minni hlutanum upplifum á raunverulegan hátt að við höfum ekki fengið fullnægjandi útskýringar. Útskýringar ráðherra — það var ósamræmi á milli þess sem ráðherra skýrði fyrir nefndinni. Við óskuðum eftir því að fá það skriflegt og fengum það ekki. Þannig að já, þið ykkar sem fagnið stórum áfanga, gerið svo vel. En ég hef áhyggjur af réttarríkinu. (Forseti hringir.) Því að þetta mál er þannig að með gjörðum ráðherrans er vafi á þessu máli öllu. Ef hún hefði leyft okkur að fara yfir þetta betur hefðum við náð miklu betri sátt um málið. Það er bara þannig. Ábyrgðin er ykkar, meiri hluti.