146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[18:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það leikur enginn vafi á því og mér heyrist menn flestir vera sammála um það að hæstv. dómsmálaráðherra hefur samkvæmt lögum fullan rétt á að koma með þessa tillögu. Njóti hún stuðnings meiri hluta þingmanna verði hún að lögum. Það er ekki annað að sjá og heyra hér en að meiri hluti þingsins styðji þessa tillögu.

Það verður aldrei hægt að sýna fram á það vísindalega að valdir hafi verið akkúrat þeir 15 hæfustu til allrar framtíðar til að gegna þessum embættum. En ég treysti því að ráðherrann, sem ber ábyrgð í málinu, velji eftir bestu getu. Ég hef ekki forsendur til að dæma um það hvort ráðherranum tókst eins vel til og mögulegt er. Það kann að vera að ef við hefðum skoðað þetta aðeins lengur hér í þinginu hefðu menn komist eitthvað nær því að geta fullyrt um það en hefðu þó aldrei getað fullyrt almennilega um það. Því hef ég engar forsendur til að vera á móti þessari tillögu en ekki heldur til að styðja hana og mun því ekki greiða atkvæði en óska nýjum dómurum og réttinum öllum velfarnaðar í störfum sínum.