146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[18:25]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Þá er bara birtingarmyndin ljós, þetta er eftir flokkslínum. Þetta er stjórnarmeirihlutinn. Stjórnarminnihlutinn vill vísa málinu til ráðherra þannig að við fáum tíma. Stjórnarmeirihlutinn vill samþykkja þetta svona, eftir flokkslínum. Þetta eru pólitískar skipanir. Þá er það bara orðið alveg ljóst. Öllum landsmönnum er það ljóst. Pólitískar skipanir af þessu tagi kosta réttmætt traust á dómskerfinu. Þær gera það. Og að sjálfsögðu situr það í maganum á fólki. Hugsið kannski til þess þegar þið reynið að ýta þessari óþægilegu tilfinningu frá, og þið munið þurfa að gera það, það eru ekki bara stjórnmálamennirnir, það er fullt af fólki sem er ekki orðið stjórnmálamenn og þarf að ýta þessu frá. Þá getið þið leitað til kunningja ykkar og kastað þessu á milli og hlegið að þessu. Það eru ýmsar leiðir til að ýta frá óþægilegri tilfinningu þegar þú veist að þú hefur verið að fórna réttmætu trausti til dómstólanna fyrir pólitíska hagsmuni, fyrir stjórnarsamstarf. Það er það sem margir hérna hafa gert og vita að þeir hafa gert það. (Forseti hringir.) Ég segi nei. Ég segi, vísum þessu til ráðherra og ráðherra komi aftur með málið. Við höfum tíma til 1. júlí.