147. löggjafarþing — þingsetningarfundur

Forseti Íslands setur þingið.

[14:11]
Horfa

Forseti Íslands (Guðni Th. Jóhannesson):

Hinn 31. ágúst sl. var gefið út svofellt bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til fundar þriðjudaginn 12. september 2017.

Um leið og ég birti þetta, er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur, og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni er hefst kl. 13.30.

Gjört á Bessastöðum, 31. ágúst 2017.

Guðni Th. Jóhannesson.

 

_________________

Bjarni Benediktsson.

 

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman þriðjudaginn 12. september 2017.“

Samkvæmt bréfi því sem ég hef nú lesið lýsi ég yfir að Alþingi Íslendinga er sett.

Í góðum hug stend ég hér meðal ykkar, þjóðkjörinna fulltrúa á Alþingi Íslendinga. Þingið er þungamiðja stjórnskipunar okkar. Hingað sækja ráðherrar og ríkisstjórn umboð sitt. Hingað horfir fólk þegar það æskir endurskoðunar á lögum landsins. Því er svo mikilvægt að Alþingi njóti virðingar manna á meðal, að þingheimur sé traustsins verður.

Ágætu alþingismenn. Þau sjónarmið hafa lengi heyrst í samfélaginu og þessum sal að skilgreina þurfi betur í stjórnarskrá völd og ábyrgð forseta Íslands. Þetta geri ég ekki að umtalsefni nú vegna þess að sá þáttur sé brýnni en aðrir þegar rætt er um breytingar á grunnsáttmála okkar, heldur liggur beint við að huga að honum vegna nýlegra álitamála um stjórnskipulega stöðu forsetans.

Fyrr í sumar brugðust fjölmargir ókvæða við þegar kynferðisbrotamenn fengu uppreist æru eftir afplánun dóms. Engu skipti að stuðst var við lög og ríka hefð um framkvæmdina. Þetta skipti engu vegna þess að lagahugtakið uppreist æru þykir úrelt og villandi. Löngu er tímabært að það heyri sögunni til. Vissulega eiga þeir sem hafa tekið út dóm að feta áfram lífsins göngu, þrátt fyrir þær þjáningar sem þeir ollu öðrum, eftir annarri slóð en fyrr. Á þeirri vegferð yrði einlæg iðrun og yfirbót eflaust til góðs og þótt fólk geti hlotið borgaraleg réttindi á ný að lokinni betrunar- og refsivist hefur slík aðgerð ekkert með æru að gera. Þá er það sjónarmið skynsamlegt, sem alþingismenn hafa lýst, að endurheimt ýmissa réttinda megi skilyrða og takmarka að lögum í ljósi þess afbrots sem framið var.

Við verðum að læra af biturri reynslu og bæta um betur. Sá ásetningur Alþingis og ríkisstjórnar að breyta ákvæðum laga um uppreist æru gefur mér von um að svo fari. Þá verður heiðurinn þeirra sem brotið var á og neituðu að bera harm sinn í hljóði. Fólk í frjálsu lýðræðissamfélagi á að láta í sér heyra þegar því er misboðið, ekki með háreysti einni saman heldur með rökum í krafti ríkrar réttlætiskenndar og þeirrar sannfæringar að þótt valdhafar megi ekki feykjast til og frá í vindum líðandi stundar þá hlusti þeir, sjái að sér þegar þess er þörf — og axli ábyrgð.

Ábyrgð skiptir sköpum í samfélagi okkar og stjórnskipun. Stjórnarskráin geymir þau ákvæði að forseti er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Hann lætur ráðherra framkvæma vald sitt og bera þeir ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. En alltaf stendur eftir annars konar ábyrgð; ábyrgð gagnvart fólkinu í landinu sem kýs sér forseta, ábyrgð gagnvart eigin samvisku, og ekki síst sú ábyrgð og skylda að færa mál til betri vegar þegar því verður við komið. Sú er raunin núna. Við óbreytt ástand verður ekki unað. Eftir óbreyttu verklagi verður ekki unnið.

Ágæti þingheimur. Sú ríkisstjórn sem tók við völdum fyrr á þessu ári hyggst vinna að endurskoðun stjórnarskrár Íslands á grundvelli þess viðamikla starfs sem átt hefur sér stað undanfarin ár, ekki síst á vettvangi stjórnlagaráðs og stjórnarskrárnefnda.

Þegar stjórnarskrá konungsríkisins Íslands var endurskoðuð við lýðveldisstofnun árið 1944 var um það einhugur að breyta því einu sem breyta þyrfti af nauðsyn við þau kaflaskil. Við fyrstu hentugleika yrði stjórnarskráin svo tekin til gagngerðrar endurskoðunar. Þannig líkti Sveinn Björnsson, fyrsti forseti lýðveldisins, henni við „bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld“.

Vissulega hefur stjórnarskrá Íslands oft verið breytt frá stofnun lýðveldis, flíkin löguð, en samfélagið vex áfram og þróast. Við það er ríkur stuðningur, innan þings sem utan, að í stjórnarskrá skuli setja ákvæði um umhverfisvernd, þjóðareign á auðlindum og þjóðaratkvæðagreiðslur, svo dæmi séu nefnd. Auk þess hafa stjórnmálaleiðtogar, stjórnspekingar og fleiri margsinnis viðurkennt, ekki síst á þessari öld, að í stjórnarskrá okkar þurfi að draga upp skýrari mynd af ríkjandi stjórnarfari, árétta þurfi að ráðherrar fari með æðsta framkvæmdarvald, hver á sínu sviði, og nefna berum orðum hvaða stjórnskipuleg völd forseti hafi í raun. Í þeim efnum má m.a. huga að atbeina við stjórnarmyndanir, þingrofi og skipun í ýmis embætti. Loks varðar miklu að völd og ábyrgð fari saman. Stjórnarskrárbundið ábyrgðarleysi forseta, sem felur samt í sér formlega staðfestingu á ákvörðunum annarra, samræmist ekki réttarvitund fólks og á ekki heima í stjórnsýslu samtímans.

Hv. þingmenn. Sumir í þessum sal vilja algjörlega nýja stjórnarskrá, aðrir litlar sem engar breytingar, rétt eins og skoðanir almennings eru skiptar. Árið 1918 varð Ísland frjálst og fullvalda ríki. Tveimur árum síðar fengum við Íslendingar nýja stjórnarskrá, í stað þeirrar sem konungur afhenti þjóðinni árið 1874. Við hæfi væri að minnast þessara miklu tímamóta næstu missera, aldarafmælis fullveldis og stjórnarskrár, með því að vinna af einurð að breytingum á grunnsáttmála þjóðarinnar, breytingum sem vitna um sameiginlega sýn sem flestra á umhverfi og auðlindir, samfélag og stjórnskipun, ábyrgð og vald.

Ég óska ykkur, þingmenn góðir, velfarnaðar í vandasömum störfum. Vinnum saman í þágu lands og þjóðar. Ég bið alþingismenn að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.

 

[Þingmenn risu úr sætum og forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

 

[Strengjakvartett flutti lagið Hver á sér fegra föðurland.]