147. löggjafarþing — 2. fundur,  13. sept. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ástkæra Alþingi. Kæru landsmenn. Í upphafi þings finnst mér gott að hugsa um mikilvægi verkefnanna sem okkur eru falin. Þingmönnum er falið mikið vald. En það vald stendur aldrei eitt og sér. Það verður aldrei annað en tæki til að axla ábyrgð og hún er númer eitt. Ábyrgð okkar er rík og það er í eðli sínu jákvætt. Það er heiður að vera treyst fyrir verkefnum sem skipta máli. Það er „bullandi sóknarfæri“, eins og Rúnar Júlíusson sálugi hefði orðað það, falið í því að axla ábyrgð.

Það er margt gott á Íslandi. Hagtölur eru margar hverjar jákvæðar, atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki og trekk í trekk sýna alþjóðlegar kannanir að íslenskt samfélag er í fremstu röð á hinum og þessum sviðum. En það þýðir ekki að allt sé fullkomið, síður en svo. Margt þarf að bæta.

Mannréttindi eru grundvöllur frjáls samfélags. Höfum hugrekki til að slást fyrir mannréttindum og laga kerfin okkar ef þau reynast gölluð. Lög um uppreist æru eru úrelt. Æra er ekki lengur nokkuð sem opinberir aðilar úthluta eða stjórna hafi það nokkurn tímann verið þannig. Það á að afnema þessar reglur.

Þegar kemur í ljós að nýsamþykkt útlendingalög tryggja ekki í verki, eins og til stóð, rétt barna eigum við ekki að vera feimin við að laga þau lög. Við eigum að taka fagnandi hvatningu forseta Íslands um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þessi mál eru stærri en flokkadrættir. Það er kappsmál að við sameinumst um slík mál, allir þingmenn. Það er ekki eins og við séum hvert af sinni dýrategundinni hérna.

Þegar ég var ungur, enn þá yngri en ég er í dag, kynntist ég fólki af hinni svokölluðu aldamótakynslóð sem fætt var kringum aldamótin 1900. Sú kynslóð Íslendinga ólst upp við kröpp kjör, léleg húsakynni, lítið aðgengi að heilbrigðisþjónustu, litla sem enga menntun en samt hópaðist þetta fólk saman fyrir framan Stjórnarráðið frostaveturinn mikla þann 1. desember, í miðjum faraldri, spænsku veikinni, til að fagna fullveldi Íslands. Þetta fólk var ekki að fagna því hvað allt væri frábært eða mótmæla því sem var ömurlegt. Það var að fagna draumnum um að hægt væri að gera betur og hafði trú á honum.

Munum að það erum við sem þjónum í forsvari, fulltrúar fólksins, sem höldum á þessum draumi. Við berum ábyrgð á að þróa hann áfram og gera hann að veruleika. Við þurfum að hafa hugrekki til að hugsa og byggja upp til langs tíma, byggja undir stöðugleika svo við séum ekki alltaf að eiga við afleiðingar síðustu kollsteypu eða í nauðvörn til að koma í veg fyrir þá næstu. Hugsum fram á við. Gerum það sem þarf til að hleypa byr undir háleita drauma.

Sköpum svigrúm og jarðveg til að fólk geti blómstrað þannig að fólk sem við vitum ekki hvað heitir geti fundið upp á einhverju sem við höfum ekki ímyndunarafl til að sjá fyrir okkur. Stóra verkefnið er framtíðin og ég er ekki bara að tala um einhver geimvísindi. Samfélag framtíðarinnar einkennist ekki síst af alls konar tækifærum. Samfélagi þar sem fólk fær jafnvel að ráða hvað það heitir sjálft, þar sem allir hafa tækifæri til náms, vinnu og þátttöku burt séð frá uppruna, kyni, heilsu eða heilsubresti.

Það er ríkt einkenni á íslensku samfélagi að okkur er ekki sama hverju um annað. Samkennd og samvinna þegar vandamál steðja að, við náttúruhamfarir og önnur áföll, er eitthvert skýrasta styrkleikamerki okkar. Við þekkjum vel gildi þess að halda utan um þá sem þess þurfa.

Ég legg ríka áherslu á geðheilbrigðismál sem heilbrigðisráðherra. Það að eiga bjarta framtíð felst ekki bara í hagsæld, atvinnuöryggi og því um líku. Hún felst ekki síður í hreinni náttúru, mannvænu samfélagi og umhverfi sem hefur faðminn opinn. Ég vil styrkja fjölbreytt úrræði, m.a. með styrkingu barna- og unglingageðdeildar og sterkari heilsugæslu. Samtals er áætlað að verja ríflega 1 milljarði kr. til og með árinu 2022 til að efla framlög til geðheilbrigðisþjónustu.

Á sunnudaginn var var haldinn alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna. Það var mér mjög dýrmætt að fá að taka þátt í kyrrðarstund í Dómkirkjunni og öðrum viðburðum. Hvert einasta sjálfsvíg er harmleikur. Hvert sjálfsvíg er ósigur fyrir samfélagið, ósigur fyrir okkur öll. Það er merki um að það hafi mistekist að halda utan um einstakling sem þurfti á því að halda. Við getum aldrei samþykkt að það sé eðlilegt eða óumflýjanlegt.

Við vitum að nú þegar er mörgum hjálpað. Það er vel og það er þakkarvert. En við getum og eigum að gera betur, stíga fyrr inn. Það er kannski aldrei hægt að halda utan um alla alltaf, en við þurfum að hafa faðminn útbreiddan alltaf. Það þarf að vera skýrt aðgengi að upplýsingum og stuðningi. Þetta er verkefni samfélagsins alls; kerfisins, ættingja og vina, félagasamtaka, skólanna og líka okkar stjórnmálamannanna.

Á næsta ári munum við loksins hefjast handa við byggingu meðferðarkjarna nýja Landspítalans. Það er stærsta einstaka verkefni íslenskrar heilbrigðisþjónustu til margra áratuga. Með nýjum spítala rætist draumur um betri aðstöðu sjúklinga og starfsfólks. Landspítalinn verður enn öflugri vinnustaður og vísindastofnun. Þetta er risaverkefni sem við höfum undirbúið lengi, kannski allt of lengi, en það er mikil ábyrgð að halda því til streitu.

Það eru óteljandi verkefni í heilbrigðiskerfinu sem mætti nefna og við erum að vinna að. Fyrir mér er lykilatriðið það að hagur einstaklingsins, sjúklingsins, sé alltaf í fyrirrúmi. Það renna 1,5 milljarðar í það verkefni að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga á næsta ári. Nýtt kerfi sem tók gildi núna í maí er hannað til þess að létta undir með þeim sem standa hvað höllustum fæti og þurfa mest á þjónustunni að halda. Við stefnum að því að gera enn betur á næstu árum.

Ég datt inn í pólitík til að reyna að gera gagn. Við stofnuðum Bjarta framtíð til að stunda öðruvísi stjórnmál. Við viljum hafa jákvæð áhrif á samfélagið og umræðuna og við viljum gera það á borði en ekki bara í orði. Þess vegna tókum við þá ákvörðun, sem var alls ekkert sjálfsögð, að setjast í ríkisstjórn til að hafa áhrif á borði, hafa raunveruleg áhrif á umhverfismálin, styðja við uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu og taka þátt í að móta framtíðina. Við viljum axla ábyrgð af því að verkefnin skipta máli.

Það er margt gott en það er alltaf hægt að gera betur. Við þurfum að halda boltanum á lofti í verkefnum dagsins en líka um leið að hafa auðmýkt og hugrekki til að hafa augun á framtíðinni því að það er hún sem skiptir mestu máli.

Alþingismenn, við erum ekki bara við sjálf, við erum fulltrúar fólksins sem kaus okkur, ykkar, kæru áhorfendur. Munum öll að gleðin, menningin, virðingin og hlýjan eru síst minna mikilvæg en krónur og aurar, lög eða reglugerðir. Vöndum okkur, verum góð og pössum að hafa alltaf faðminn útbreiddan. Ég hlakka til samstarfsins við ykkur öll í vetur.

Þakka þeim sem hlýddu. — Góða ferð.