147. löggjafarþing — 2. fundur,  13. sept. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:09]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Fram kom í stefnuræðu forsætisráðherra að landsmenn yrðu að hafa þolinmæði til að byggja innviði upp í samræmi við efni og aðstæður hverju sinni. Það er skiljanlegt að ríkisstjórn aðgerðaleysis kalli eftir þolinmæði. Það er nefnilega þannig að þolinmæði getur vissulega verið dyggð. Margt getur áunnist með henni. Hins vegar er það svo að uppi eru mörg brýn samfélagsverkefni sem þola enga bið.

Ef ekki verður tekið á þessum málum í dag verður kostnaðurinn mun meiri í framtíðinni.

Ágætu landsmenn. Það er samfélagsleg sátt og eining um að bæta heilbrigðisþjónustu á Ísland. Við í Framsóknarflokknum lögðum fram þingsályktunartillögu um gerð heilbrigðisáætlunar fyrir Ísland sem samþykkt var á síðasta þingi. Við leggjum mikla áherslu á geðheilbrigðismálin, ekki síst nærþjónustu er þau varðar.

Í tilefni af alþjóðlegum forvarnadegi sjálfsvíga var haldinn fræðslufundur sem fjallaði um árangursríkar forvarnir og stuðning við fjölskyldur eftir sjálfsvíg. Margt átakanlegt kom þar fram en meginskilaboðin voru að ef unnið er markvisst að forvörnum er hægt að ná umtalsverðum árangri og bjarga mannslífum.

Ég veit að fagfólk okkar í heilbrigðisstétt skilur þetta mætavel. En stjórnvöld þurfa að veita miklu meiri stuðning en nú er gert. Það er engin sérstök þolinmæði gagnvart frekari töfum á fjárfestingu í þessum málaflokki. Við verðum að gera betur.

Góðir landsmenn. Síðasta ríkisstjórn jók greiðslur til eldri borgara um 24 milljarða frá árinu 2016–2017. Hins vegar var ákveðinn hópur eldri borgara fyrir verulegum skerðingum þegar frítekjumarkið var lækkað, sem þýddi í mörgum tilfellum umtalsverða lækkun á ráðstöfunartekjum. Þetta er einmitt fólkið sem er enn á vinnumarkaðnum og langar að vinna áfram. Þessi hópur upplifir ekki aðeins verri kjör heldur að búið sé að setja ákveðnar skorður á hann, að skilaboð samfélagsins séu að eldri borgarar eigi að yfirgefa vinnumarkaðinn.

Þetta tel ég kolröng skilaboð því lífaldur þjóðarinnar fer ört hækkandi. Ég segi: Það þarf að hækka frítekjumarkið aftur. Það þarf að gera það mun hraðar en nú er gert ráð fyrir.

Eldri borgarar eiga inni hjá okkur að við bregðumst hratt og örugglega við. Við í Framsóknarflokknum erum svo sannarlega tilbúin til að vinna að leiðum svo að það geti orðið að veruleika. Það vill nú þannig til, og beini ég þessu til ríkisstjórnarinnar, að þessi hópur eldri borgara hefur enga þolinmæði til að bíða eftir frekari aðgerðum.

Góðir landsmenn. Virðisaukaskatt á bækur á að afnema. Við Íslendingar erum bókaþjóð. Bækur gegna lykilhlutverki í menntakerfinu og miðla sögu og menningu okkar til komandi kynslóða. Nú er svo komið að bóksala hefur dregist saman um 31% frá árinu 2008 og sölutölur fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins sýna mikinn samdrátt. Ýmsar ástæður eru líklega fyrir þessum samdrætti, til dæmis aukin notkun samskiptamiðla og önnur afþreying. Hins vegar er mikilvægt að bregðast við þessari þróun. Noregur, Færeyjar, Bretland og Írland hafa öll afnumið virðisaukaskatt á bækur. Í kjölfarið hefur sala aukist verulega.

Ljóst er að íslensk bókaútgáfa mun minnka verulega ef ekki verður tekið á þessari þróun. Fyrir því er engin þolinmæði. Þess vegna munu þingmenn Framsóknarflokksins leggja fram frumvarp á næstu dögum um breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem felur í sér afnám skatts á bækur. Ég hvet aðra þingmenn til þess að koma á þetta mál með okkur.

Góðir landsmenn. Ég tel að hægt sé að hagræða frekar í ríkisrekstri, til að mynda með sameiningu stofnana og frekari ábyrgð er varðar rekstur ríkissjóðs. Við þurfum að lækka áfram skuldir til að lækka vaxtakostnað sem eykur svigrúmið sem við höfum til fjármögnunar velferðarmála. Það er brýnt að forgangsraða í þágu velferðarmála ásamt því að grunnatvinnuvegir okkar fái að blómstra í stöðugu umhverfi. Farsæl framtíð liggur í því að stjórnvöld skilji hvenær á að fara í brýn framfaramál og hvenær þau þola enga bið.

Ég er full tilhlökkunar fyrir komandi þingvetri og hlakka til samstarfsins hér á þingi og samtalsins við kjósendur.