147. löggjafarþing — 2. fundur,  13. sept. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:15]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Kæru landsmenn. Það er að vissu leyti öfundsvert að fara með málefni grunnatvinnugreina okkar Íslendinga, sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Sjávarútvegurinn er lýsandi dæmi um atvinnugrein sem dafnar vegna góðrar umgjarðar, kerfi sem byggir á sjálfbærni og vísindalegri ráðgjöf þannig að þorskstofn okkar Íslendinga hefur ekki verið sterkari nú í fjörutíu ár.

Hvað hefur þetta þýtt? Þetta hefur þýtt verðmætasköpun og samkeppnishæfari lífskjör sem aftur skila sér til samfélagsins og gera okkur betur í stakk búin til að takast á hendur sameiginleg verkefni, til dæmis á sviði mennta- og velferðarmála. En umgjörðin er ekki óumdeild. Áskorunin sem við stöndum frammi fyrir er að koma á betri sátt um gjaldtöku vegna nýtingar á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Það er verkefni stjórnmálanna, sem við eigum og megum ekki skorast undan. Stjórnmálin hafa áður, allir flokkar, leyst erfið viðfangsefni á þessu sviði. Ekkert mælir gegn því að svo verði aftur.

Allir flokkar á þingi eiga nú fulltrúa í sáttanefnd um sjávarútveg. Allir flokkar geta því komið að þessari sáttargjörð sem ætti að stuðla áfram að sjálfbærni, hagkvæmni og umfram allt sanngirni. Ég vil brýna fyrir þingheimi, þó að það kunni að vera hundur í sumum, að vinna af einlægni að því að búa sjávarútveginum stöðugt umhverfi til frambúðar.

Vöxtur fiskeldis lofar góðu. Málefni þess munu koma til kasta þingsins í vetur. Ef við höldum vel á spilum verður það atvinnugrein sem mun skapa mikil verðmæti fyrir samfélagið okkar og styrkja líka byggðir í landinu. Reynsluboltar sem ég hitti og eigendur fiskeldisfyrirtækja í Noregi sem ég hitti ekki alls fyrir löngu ráðlagði mér eindregið: Farið ykkur hægt, kæru Íslendingar. Ég tek undir það. Við verðum að tryggja gott jafnvægi milli nýtingar og umhverfissjónarmiða. Orðspor okkar á sviði sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda eins og sjávarútvegs er gott. Í því eru fólgin verðmæti í sjálfu sér. Fiskeldið getur að sjálfsögðu styrkt þá ímynd.

Starfshópur ólíkra hagsmunaaðila um mótun stefnu í fiskeldi kom sér saman um að miða við svonefnt áhættumat Hafrannsóknastofnunar Íslands, helstu rannsóknarstofnunar okkar á sviði hafs og vatna. Áhættumatið er breytilegt plagg en það er grunnur sem við eigum að byggja á til lengri tíma litið. Það fer í alþjóðlega rýni nú í byrjun október. Auðvitað á að taka alla gagnrýni alvarlega, fara vel yfir hana, að sjálfsögðu. Ég vil benda landsmönnum á að í næstu viku munum við í sjávarútvegsráðuneytinu standa fyrir morgunverðarfundi einmitt um áhættumat Hafró.

En það hefur líklega ekki farið fram hjá mörgum að sauðfjárræktin hefur verið nokkuð í sviðsljósinu að undanförnu. Hún á það alla jafna skilið, enda um úrvalsafurð, um náttúru Íslands, að ræða, sem við eigum ekki að vera feimin við að kynna, bæði fyrir Íslendingum á öllum aldri sem og útlendingum. En umræðan um greinina hefur verið hvöss á síðustu vikum. Öll viljum við öflugan landbúnað á Íslandi. Auðvitað hafa stjórnvöld það meginhlutverk að búa greininni góð starfsskilyrði. Þeim ber að hafa hagsmuni framleiðenda, bænda, í huga. En skyldurnar gagnvart neytendum og skattgreiðendum eru líka ríkar. Þessir hagsmunir geta auðveldlega farið saman þótt sumir hér eigi torvelt með að melta það. Þetta eru almannahagsmunir.

Síðan samtal mitt við sauðfjárbændur hófst í vor hefur myndin breyst. Birgðavandinn nú virðist vera minni en í fyrra. Kannski var ríkari ástæða til að grípa til aðgerða þá en nú. En það var ekki gert. Ég tel að við eigum að læra af umræðu síðustu vikna og fara saman yfir virðiskerfi sauðfjárræktarinnar, bændur, afurðastöðvar, sláturleyfishafar, neytendur og stjórnvöld. Í millitíðinni væri kannski réttast fyrir afurðastöðvarnar í ljósi stöðunnar að endurskoða lækkun afurðaverðs til bænda. Það gæti auðveldað frekari endurskoðun á greininni, henni til heilla, og byggt upp traust.

Það er rétt að undirstrika að afurðastöðvarnar ætla sér svo sannarlega að svara kalli tímans. Alls kyns vörur eru nú þegar í þróun. Bændur sjálfir hafa beint til mín fjölbreyttum hugmyndum um það sem betur mætti fara, til dæmis með auknum gæðakröfum og frelsi fyrir bændur til að velja aðrar greinar og fara aðrar leiðir. Sjálf hef ég kallað eftir langtímalausnum sem koma í veg fyrir að sömu vandamálin komi upp aftur og aftur. Ég vil beita mér fyrir auknu frjálsræði innan landbúnaðarins, nýsköpun, markaðsstarfi og vöruþróun. Við þurfum að einfalda regluverk, hugsa um kolefnisjöfnuð og stuðla að nánara sambandi milli bænda og neytenda, til dæmis í gegnum framleiðslu og sölu beint frá býli.

Með fjölbreytileika og frelsi verður greinin sterkari og meira aðlaðandi, ekki síst fyrir unga bændur.

Verkefni okkar, herra forseti, fyrir þessar mikilvægu atvinnugreinar, sjávarútveg og landbúnað, er að byggja upp umhverfi fyrirsjáanleika sem samhliða getur aðlagast breyttum tímum, breyttum kröfum og þörfum. Við stjórnmálamenn getum aldrei staðið í vegi fyrir eðlilegri þróun og það á ekkert okkar hér inni að óttast skynsamlegar og hófsamar breytingar. — Góðar stundir.