147. löggjafarþing — 2. fundur,  13. sept. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:58]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Í ræðu minni hér í kvöld væri ég til í að tala um afskaplega margt, t.d. geðheilbrigðismál, málefni eldri borgara eða ástandið á húsnæðismarkaði, nú níu árum eftir hrun. Ég væri til í að fjalla um bankana, hagnað þeirra og þá ómögulegu stöðu ef vogunarsjóðir teljast hæfir til að eiga virkan hlut í þeim.

Ég væri líka til í að tala um gríðarlega vel heppnað samstarfsverkefni lögreglunnar og sveitarfélaga þar sem ráðist var í átak gegn heimilisofbeldi sem vakið hefur heimsathygli sem framúrskarandi nýsköpunarverkefni. Það var samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga sem við eigum að taka til fyrirmyndar og gera miklu meira af. En ég ætla að geyma þessa mikilvægu umræðu þar til seinna í vetur.

Góðir landsmenn. Ég ætla að verja örstuttum tíma í að horfast í augu við þá staðreynd að ég mun slá met á þessu þingi. Sagt er að ég verði sá þingmaður sem verður með stystan feril á Alþingi í a.m.k. hálfa öld. Ég vona að þjóðin virði það við mig að ég láti hjartað ráða för. Ég ætla að fá að vinna sem kjörinn fulltrúi fyrir Kópavogsbúa. Það kemur maður í manns stað hér á þingi eins og annars staðar. Ég verð þó að nefna í þessu samhengi að ég finn á viðbrögðum við ákvörðun minni að ég hef hreyft við einhverju. Ég hef fengið sterk viðbrögð um að kannski þurfi störf Alþingis að þróast, færa sig nær nútímanum eða jafnvel nær uppruna sínum. Slík viðbrögð finn ég bæði innan Alþingis og utan.

Forseti þingsins upplýsti í ávarpi sínu í gær að hún hafi í hyggju að efna til opinna funda með landsmönnum, spyrja hvernig Alþingi ætti að starfa öðruvísi og nefndi að við sem hér sitjum yrðum að slá í takt við þjóðina. Ég er sammála því. Ég hef fulla trú á að það samtal leiði til þess að hefðin taki breytingum til hins betra. Ég ætla að taka þátt í þeirri vinnu af heilum hug ásamt þeim verkefnum sem bíða okkar á 147. löggjafarþingi.

Góðir landsmenn. Umræður og samtal um ríkisfjármál munu fara fram hér næstu daga. Það er heiður fyrir mig að fá tækifæri til að taka þátt í slíku samtali. Ásetningur okkar í Bjartri framtíð er að horfa til langs tíma. Hvernig breytum við til betri vegar? Hvernig bjóðum við bestu þjónustuna fyrir alla sem þurfa á henni að halda án þess að djúp niðursveifla þurfi að koma til? Uppsveiflur eru aldrei eilífar. Því verðum við að horfa til lengri tíma, sýna ábyrgð í fjárveitingum og búa í haginn fyrir erfiðari tíma. Það að tala um ábyrgð og jafnvægi er ekki vinsæl pólitík, ég veit það, en ég tel hana skynsamlega og ég fylgi sannfæringu minni því að ég vil ekki annað hrun.

Ég er óhrædd við að taka samtal um erfiða hluti, en ég bið um að við gerum það á heiðarlegan hátt og að við vöndum okkur. — Ég þakka þeim sem hlýddu.