147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[10:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Það væri hægt að spyrja um margt og óhætt er að segja að þetta frumvarp endurspeglar það sem kom fram í áætluninni í vor sem er fyrst og fremst aðhald.

Því langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega út í skólamálin. Hjá meiri hluta fjárlaganefndar kom fram tillaga eða beiðni um að skoðað yrði, sérstaklega hvað varðaði framhaldsskólana, að halda inni fjármununum sem hefðu farið í raun út úr kerfinu en hefðu átt að haldast inni vegna styttingar. Mig langar að spyrja ráðherrann hvers vegna það var ekki gert. Samkvæmt mínum útreikningum og myndinni á bls. 314 virðast vera í kringum 56 milljónir til allra framhaldsskóla á landinu sem þeir hafa í raun inn í sinn grunnrekstur til viðbótar við það sem ekki er búið að festa nú þegar í launum og öðru slíku.