147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[10:48]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ósköp var þetta nú rýrt. Það er nefnilega vert að geta þess að þetta kemur ágætlega fram í þessari bók. Það er útgjaldasvigrúm. Þessu er mjög mikið stillt upp þannig. Það er útgjaldasvigrúm. Í framhaldsskólunum er það 686 milljónir. Svo er nefnilega kassi við hliðina á sem segir: aðhald. Það eru 605 milljónir. Mismunurinn er því það sem stendur eftir. Hann er ekki sá sem hefði átt að vera ef fjármunirnir hefðu átt að haldast inni.

Það má í raun segja að það sé svipað með háskólastigið þó að þar sé útgjaldasvigrúmið reyndar nýtt og aðhaldið minna, en þar eru felldir niður peningar sem áður voru inni í kerfinu. Ég get ekki fallist á það með ráðherranum að fjármunirnir séu inni sem voru fyrir í kerfinu og sérstaklega framhaldsskólakerfinu sem átti að vera þar miðað við það sem sagt var, nema það sé bara breyting. En meiri hluti fjárlaganefndar leit ekki svo á. Það verður áhugavert að fara í gegnum það hversu margar tillögur sem lagðar voru (Forseti hringir.) fram af hálfu nefnda fengu yfirleitt brautargengi.