147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[10:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Aftur þakka ég hv. þingmanni fyrir ábendingu hans. Vissulega tökum við mikið mark á því og við vitum það og höfum ekki legið neitt á því að það mun koma að því að ekki verði jafn góð tíð eins og nú hefur verið. Þess vegna höfum við einsett okkur að nýta þær aðstæður sem eru í efnahagslífinu til þess að reyna að greiða niður skuldir. Við sjáum að það sem hjálpaði okkur mikið í hruninu árið 2008 var sú framsýni stjórnvalda á þeim tíma að hafa greitt niður skuldir. Það var gert markvisst um árabil. Þess vegna kannski tókst okkur að komast jafn hratt út úr því hruni og raun ber vitni. Þarna sýnum við ábyrgð og hlustum svo sannarlega á eigin orð.