147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[10:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit að hv. þingmaður er sammála mér um að það er auðvitað mjög mikilvægt að við náum að varðveita þann góða árangur sem náðst hefur. Það er enginn ágreiningur um það. Varðandi þessi ákveðnu gjöld lít ég svo á að þarna séum við fyrst og fremst að bregðast við loftslagsbreytingum. Við erum að reyna að ná sem allra fyrst markmiðum okkar um að hér verði hreinir, innlendir orkugjafar meginorkugjafar í ökutækjum. Vonandi verður það líka í öðrum samgöngum, t.d. í skipum í náinni framtíð. Þarna er þróunin hröð og við erum að reyna að hraða henni með þessu. Það er markmiðið fremur en tekjuöflun.