147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[10:57]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svörin. Þau skýra ekki að fullu rökstuðninginn um mikilvægi þess að viðhalda stöðugleika.

Fjármálaráð gagnrýndi sérstaklega í fjármálaáætluninni fyrirhugaða lækkun á virðisaukaskattinum, sem á að gerast 1. janúar 2019, þar sem menn ætla síðan að gefa út slaka upp á 10, 15 milljarða, ef ég man rétt, upp á 1,5%.

Þá verð ég að spyrja aftur: Hvernig samrýmist það því að viðhalda stöðugleika í þensluumhverfi ef menn hækka álögur á almenning á þessu ári en ætla síðan að gefa þrisvar sinnum meiri slaka með lækkun virðisaukaskatts í upphafi árs 2019? Er enginn rökstuðningur, er ekkert samhengi í því hvernig menn ætla að viðhalda þessum stöðugleika?

Sé það nú svo að menn hafi lagt þessar verulegu skattahækkanir á nú á þessu ári eða á árinu 2018, hafa menn velt því fyrir sér hvar þær lenda? Þetta mun hækka verðtryggðar skuldir. (Forseti hringir.) Þessar álögur leggjast auðvitað mjög misjafnt á fólk eftir búsetu, eftir því hvort keyra þarf að bíl um langan veg — (Forseti hringir.) ekki geta allir keypt Teslur á 10 milljónir og keyrt 400 kílómetra á rafmagni.