147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður minntist á aðhaldið, bæði í andsvari sínu við hæstv. fjármálaráðherra og einnig í ræðu sinni. Mig langaði til að vekja aðeins athygli á þessu í fjárlögunum. Hér er á hverju einasta málefnasviði aðhaldskrafa. Ef ég fletti t.d. upp á málefnasviði 7, Rannsóknir, nýsköpun og þekkingargreinar, bls. 222, erum við með aðhaldskröfu upp á 153 milljónir. Af hverju erum við með aðhaldskröfu í rannsóknum, nýsköpun og þekkingargreinum? Og af hverju erum við með aðhaldskröfu yfirleitt?

Hérna erum við einfaldlega að ákveða hversu miklar fjárheimildir hver stofnun, málefnasvið og málefnaflokkur fær. Aðhaldskrafa kemur því ekkert við því að að lokum ákveðum við hversu mikill peningur á að fara hvert.

Það er mjög skrýtið að vera alltaf með einhvern takka sem skrúfar niður upphæðina sjálfkrafa og hefur í rauninni enga þýðingu þegar við ákveðum lokaupphæðina.

Mig langaði því að eiga samtal við hv. þingmann aðeins um þessa aðhaldskröfu sem er gerð sjálfkrafa og dettur inn á eitthvað, eins og rannsóknir, það er bara fáránlegt að það skuli eiga sér stað, og leggja það svona inn í umræðuna í framhaldinu hvernig við eigum að — ættum við ekki að breyta þessu?