147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:16]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er alveg óhætt að segja að mjög víða, eins og ég kom inn á í ræðu minni, er það þessi aðhaldskrafa sem étur í raun upp það sem talað er um sem útgjaldasvigrúm. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að stofnanir geta margar hverjar gert betur og það getur verið gott að hafa einhvers konar aðhald til að mæta því og reyna að eiga við það en hins vegar, þegar við erum að tala um fjársvelta starfsemi til margra ára, eins og í heilbrigðisgeiranum, eins og í menntageiranum, eins og í samgöngum, finnst manni auðvitað skrýtið að aðhaldið sé það mikið að allt of lítið verði hægt að gera sem skiptir verulega miklu máli í þessum kostnaðarsömu verkefnum.

Það er auðvitað mjög sérstakt það sem þingmaðurinn bendir á varðandi rannsóknir, nýsköpun og þekkingargreinar. Það er mjög sérstakt að hér er lækkun á milli rammanna, sem sagt áranna 2017 og næsta árs, um nærri 200 milljónir. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra flutti ræðu hér í gær og talaði um framtíðarsýnina, hvað myndi taka við og hvort þörf væri á einhverri tiltekinni menntun eða ekki, en maður spyr sig hvort verið sé að skera niður í þessum geira. Það er svolítið sérstakt.

En við eigum eftir að fara betur yfir þetta í fjárlaganefnd. Þetta frumvarp átti að verða enn læsilegra en áður og það er eitthvað áleiðis, verð ég að segja, en alls ekki nægjanlega. Við stöndum enn frammi fyrir því að vera að leita og tölur virðast ekki stemma í texta og í töflum.